145. löggjafarþing — 76. fundur,  16. feb. 2016.

uppbygging áningarstaða Vegagerðarinnar við þjóðvegi.

150. mál
[17:53]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það með að útvista til einkaaðila annars vegar og nýta fjármuni ríkisins betur hins vegar grundvallast í ólíkri hugmyndafræði okkar hv. þingmanns. Mér finnst ekki hægt að líkja því saman hvort maður er með einn lítinn grænan róló og vill útvista honum til félagasamtaka eða hvort við erum að tala um áningarstaði um land allt sem Vegagerðin sinnir. Hv. þingmaður talaði um að mannskapurinn sem við hefðum hefði kannski nóg að gera við sín verkefni. Vegagerðin er að sinna öllum þessum áningarstöðum nú þegar. Eflaust mundi vinnan eitthvað aukast ef komin væru fleiri salerni. Ég ætla ekki að halda öðru fram. Það snýst þó fyrst og síðast um að við nýtum vel mannskapinn og okkar opinbera fé og ég trúi að við hv. þingmaður séum sammála um að gera það.

Ég er ekki að slá neina hugmynd út af borðinu. Hún hugnast mér bara síður. Það er væntanlega eitt af því sem þessi starfshópur mundi velta fyrir sér. Ég hef heldur enga ofurtrú á starfshópum en það er ferli í gegnum þingið sem okkur er boðið upp á, það að leggja til eitthvað slíkt þannig að hugsanlega fái hugmyndirnar að minnsta kosti áheyrn, þótt ekki sé annað. Það er það sem við erum að koma að. Við erum að reyna að skjóta þessu inn í umræðuna og eins og ég sagði áðan höfum við ráðherra ferðamála hér sem er búinn að setja á stofn stjórnstöð sem ég til dæmis taldi ekki þörf á. Hún er samt orðin að veruleika og hún getur tekið þessar hugmyndir sem og aðrir ferðaþjónustuaðilar sem koma að því í samráði við þessa stjórnstöð að móta til framtíðar hugmyndir varðandi innviðina. Fyrst og fremst er samt Vegagerðin að sinna tilteknum stöðum og ég tel það hagræði, tel það einfalt og til þess fallið að það geti gengið hratt fyrir sig. Það er það sem við þurfum fyrst og fremst á að halda, að þetta verði ekki verkefni sem fari inn í næstu árin heldur getum við bara hrundið þessu af stað.