145. löggjafarþing — 76. fundur,  16. feb. 2016.

sveitarstjórnarlög.

219. mál
[18:07]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu. Ég vil fyrst taka undir með hv. þm. Róberti Marshall. Ég ætla að orða það þannig að það sé ótrúlegt klúður sem hefur átt sér stað í því hvernig innheimta eigi gjöld af ferðamönnum. Það er bæði sorglegt og eiginlega svolítið hlægilegt að sjá hvernig við erum allt í einu komin upp fyrir haus og vitum ekki okkar rjúkandi ráð í því.

Stundum virðist manni eins og okkur finnist ferðamenn orðnir allt of margir hér því að sá einfaldi hlutur, sem það í raun er, hefur ekki tekist hvernig innheimta megi sérstakt gjald af ferðamönnunum. Menn, eða kannski konur, hafa farið í langa hringi og mjög flóknar aðferðir við að reyna að finna upp hjólið þegar til eru í heiminum aðferðir sem blasa við og eru sáraeinfaldar. Ein af þeim er hér. Þetta er sáraeinföld leið, mjög góð, mjög pottþétt, til þess að þeir sem fénýta og gera út á náttúru landsins í hópferðum greiði fyrir það.

Það er ekkert nýtt í okkar huga, eitthvað sem heitir sérleyfi. Sá sem selur ferðir á Gullfoss og Geysi borgar eitthvað ákveðið fyrir hvern farþega sem kemur. Sá sem gerir út á Þingvelli eða Reynisfjöru gerir slíkt hið sama. Síðan er það, eins og fram kemur hér, sveitarfélaganna að fá þessar tekjur og sjá um uppbyggingu á stöðunum. Öryggi mundi í einhverjum tilfellum falla undir þetta. Í öðrum tilfellum fellur öryggi ferðamanna ekki síður, eins og öryggi okkar allra á vegum og annað, undir ríkisvaldið. Þá yrði það greitt af öðrum gjöldum sem koma inn með þessum mikla ferðamannaiðnaði sem er okkur svo mikilvægur. En fyrst og síðast greiða þeir sem gera út á þessa staði gjöld fyrir að koma þangað með stóra hópa og sveitarstjórnin getur þá byggt þessa staði upp.

Ég hef svo sem ekkert til málanna að leggja annað en það að ég hefði gjarnan kosið að vera meðflutningsmaður á þessari tillögu, því að mér finnst hún mjög góð.