145. löggjafarþing — 76. fundur,  16. feb. 2016.

sveitarstjórnarlög.

219. mál
[18:10]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Engar áhyggjur, ég verð ekki langorður um þetta mál. En mér fannst rétt að koma hér upp og lýsa yfir stuðningi við það. Þetta mál vekur tvær tilfinningar hjá mér. Önnur er: Af hverju datt mér þetta sjálfum ekki í hug fyrr? Hins vegar: Getur þetta raunverulega verið svona einfalt? Þetta er afskaplega einföld hugmynd sem mér þykir hitta beint í mark og hugsanlega leysa þetta undarlega þrætumál.

Mér finnst líka alveg rétt að hafa örfá orð um þær hugmyndir sem hafa komið fram áður og sömuleiðis hvernig umræðan í kringum þennan málaflokk hefur verið. Mér hefur fundist hún frekar skrýtin. Karpið hefur aðallega verið um það hvernig eigi að fjármagna eitthvað sem ég held að flestir hljóti að líta á sem grundvallarinnviði Íslands, sem eins fallegasta lands í heimi og ferðamannastaðar, sér í lagi með hliðsjón af því að ferðamannaiðnaðurinn er orðinn svo stór. Upphæðin sem maður hefur heyrt fleygt í kringum það er 1,5 milljarðar, sem er umtalsverð upphæð í mörgu samhengi, en hins vegar þykir mér hún mjög lág í samhengi við fjárlög og mikilvægi þess að hafa innviði Íslands í lagi þegar kemur að náttúruperlunum og þeim innviðum sem við þurfum til þess að vernda náttúruna fyrir ágangi ferðamanna og fólks sem fer um landið.

Ég ætla að fylgjast með þessu máli í meðferð þingsins og hlakka mikið til að sjá umsagnir. Það hlýtur að vera eitthvað að, miðað við hvað þetta er einföld tillaga en samt svo glæsileg. Ég mundi þá í sjálfu sér fyrst og fremst búast við að það væru einhver tæknileg vandkvæði þar að baki frekar en að hugmyndin sjálf sé gölluð því að ég sé það ekki í fljótu bragði, eftir að hafa aðeins velt þessu máli fyrir mér.

Ég fagna þessu máli og þakka hv. flutningsmönnum fyrir að koma fram með það. Ég vona að það nái því markmiði að lægja þær öldur sem sífellt rísa að ástæðulausu um þetta þjóðþrifamál.