145. löggjafarþing — 76. fundur,  16. feb. 2016.

Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað.

237. mál
[18:13]
Horfa

Flm. (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P):

Virðulegi forseti. Ég hneyksla stundum viðmælendur mína með því að segja að Alþingi sé merkilega gegnsæ stofnun. Hér fáum við að sjá frumvörp, við fáum að sjá þingmál, nefndarálit, innsend erindi og ýmis fleiri gögn sem geta aðstoðað okkur við það að skilja hvernig landið okkar virkar, löggjöfin er o.s.frv. Það sem er hins vegar ekki alveg jafn gegnsætt samkvæmt minni reynslu eru reglugerðir. Ég er viss um að allir sem hafa eitthvað þurft að garfa í reglugerðum kannast við það vandamál að geta flett upp reglugerð en þurfa síðan að fletta sérstaklega upp breytingum til þess að komast að því hvaða reglugerð sé í gildi.

Í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands er sagt að lög skuli birta. Það virðist augljóst og sjálfsagt enda er það það, en undirliggjandi tónninn þar er sá að borgarinn hefur rétt á því að þekkja lögin í landinu sem hann býr í, hann hefur rétt á því að skilja stjórnsýsluna og hann hefur rétt á því að skilja hana vel. Hann hefur rétt á því að hafa gott aðgengi að upplýsingum um það hverjar reglurnar eru, hverjar reglugerðirnar eru, á hvaða lögum þær eru byggðar og hver þau lög eru. Mér hefur fundist það fyrirkomulag sem tíðkast því miður, að reglugerðir eru ekki birtar í uppfærðri útgáfu, vera í mikilli mótsögn við það góða prinsipp að lög skuli birta og vera aðgengileg almenningi með sem minnstum fyrirvörum og sem minnstum töfum og á sem auðveldastan hátt.

Frumvarpið sem ég legg hér fram til þess að leysa þetta vandamál er einfalt, en það er breyting á lögum um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, með síðari breytingum. Þar segir að við lögin bætist ný grein, 7. gr. a, svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Ef gefin er út breyting við stjórnvaldsfyrirmæli skv. 3. gr. eða við samning skv. 4. gr. skal fella texta hennar við gildandi stjórnvaldsfyrirmæli eða samning og birta á vef þess ráðuneytis sem fer með framkvæmd málaflokksins.“

Það sem mér finnst í raun og veru skrýtnast er að það þurfi að nefna þetta upphátt. Margir hafa hváð yfir þessu og ég átta mig ekki alveg á því hvernig þetta gerðist, vegna þess að þetta er það sjálfsagt. Það er víðar í stjórnsýslunni sem fólk á erfitt með að nálgast reglur, stundum er það vegna þess að menn telja mikilvægt að halda þeim leyndum af einhverjum ástæðum. En það hefur nýlega komið til tals sú meginregla að lög skulu birta og reglur sem byggðar eru á reglugerðum séu byggðar á lögum. Ef reglurnar eru ekki einu sinni birtar getur það í það minnsta vakið upp þá spurningu hvort þær séu raunverulega í gildi, nema þær séu leynilegar af afskaplega góðum ástæðum sem oft er ekki tilfellið, alla vega stundum.

Ég býst ekki við því að fá neinar mótbárur við þetta mál. Ég get ekki ímyndað mér neina einustu málefnalegu ástæðu fyrir því að hafa reglugerðir í þeirri flækju sem þær eru núna og býst því fastlega við því að þetta mál fái góðan hljómgrunn í nefnd og við meðferð þingsins, en auðvitað væri æskilegast ef ekki þyrfti svona frumvarp. Auðvitað væri æskilegast ef þetta væri lagað af sjálfu sér. Með hliðsjón af því að þetta hefur ekki lagast af sjálfu sér tel ég hins vegar algjörlega við hæfi að setja lög, þannig að þetta sé algjörlega skýrt.

Þetta má líka vera meginstefið inn í framtíðina að mínu mati, að löggjöf, reglugerðir og reglur séu aðgengilegar almenningi og það sé hluti af grundvallaratriðum réttarríkisins og réttindum borgaranna í landinu.

Það er í sjálfu sér ekki mikið meira að segja um þetta mál. Ég hlakka til að fylgjast með framvindu málsins á Alþingi og sjá hvernig fer. Ég vona að þingið geti að lokum starfað á þann hátt að okkur takist að afgreiða til fullrar meðferðar og inn í atkvæðagreiðslu mál á borð við þetta, sem ætti að mínu mati ekki að vera á neinn hátt umdeilt.