145. löggjafarþing — 76. fundur,  16. feb. 2016.

Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað.

237. mál
[18:20]
Horfa

Flm. (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er sjálfsagt mál. Reglugerðir og breytingar á þeim eru vissulega birtar, en þær eru birtar þannig að breytingarnar eru birtar og síðan reglugerðin. Það kemur alla vega oft fyrir að reglugerð er birt einhvers staðar, og síðan er henni breytt en reglugerðin er hvergi til í uppfærðu sniði, sem þýðir að sá sem ætlar að kynna sér efni reglugerðar þarf að finna til breytingarnar og setja þær sjálfur inn. Það er handavinna. Það veldur ruglingi. Það veldur flækjustigi, sem er algjörlega óþarfi að mínu mati. Markmiðið með frumvarpinu er að gera þetta þannig að það sé alltaf til uppfærð reglugerð á vef sem er í gildi á þeim tíma sem hún er skoðuð, ekki einungis reglugerðin í upprunalegri mynd ásamt breytingunum sem maður þarf að setja inn í upprunalegu reglugerðina á sama vef. Það hefur valdið ruglingi hjá þeim sem hér stendur við að skoða mál. Ég veit líka af fólki úti í bæ sem hefur lent í því.

Auðvitað er það samt sem áður þannig að þegar fólk fær fagreynslu í einhverju getur það öðlast einhverja færni í því að takast á við svona vandamál. Ég hugsa að allir þingmenn séu orðnir vanir því að fletta hlutum upp á Alþingisvefnum, en fólki úti í bæ getur fundist það mjög flókið. Það veit oft ekki að hægt er að senda inn umsagnir eða hvar þær er að finna á vefnum. Við á Alþingi verðum ónæm fyrir þeim vandamálum vegna þess að við erum svo vön að fletta upp og vinnum í þessu umhverfi daglega. Vissulega eiga margir lögfræðingar úti í bæ sem eru vanir þessu ekki í neinum teljandi vandræðum með að fletta upp. Það sem mér finnst aðalatriðið hér er að borgarinn sjálfur sem er ekki lögfræðimenntaður, hefur rétt á því að geta nálgast reglugerðir með sem auðveldustum hætti. Mér þykir það alveg einsýnt miðað við núverandi fyrirkomulag að mikil hætta er á ruglingi þegar hinn almenni borgari reynir að leita sér upplýsinga um hvaða reglugerðir gilda í landinu. Mér þykir sjálfsagt að reyna að laga það.