145. löggjafarþing — 76. fundur,  16. feb. 2016.

Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað.

237. mál
[18:24]
Horfa

Flm. (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar maður vinnur mikið í kerfinu áttar maður sig ekki á því hvað það er sem þvælist fyrir hinum almenna borgara, en það er fyrst og fremst hann sem ég er að hugsa um þegar kemur að þessu frumvarpi.

Hvað varðar kostnað þá þori ég ekki að meta hann, en mér þykir hann vera mikið aukaatriði. Við mundum aldrei sleppa því að uppfæra landslög til þess að spara peninga. Ég held ekki að við mundum sleppa alþingiskosningum til að spara peninga. Það eru ákveðnir hlutir í réttarríki sem við spörum ekki við okkur, eins og til dæmis að birta með sómasamlegum hætti þær reglur og þau lög sem gilda í landinu.

Það er alveg þess virði að ítreka að auðvitað er þetta allt saman birt enda held ég að annað væri ekki löglegt. Það er hins vegar þannig að fólk á misjafnlega erfitt með að skilja þau tæki sem eru til staðar til þess að komast í gögn. Og jafnvel þótt vefur Alþingis sé mjög góður mínu mati, mér þykir hann rosalega skilvirkur og þægilegur og ég á ekki í neinum vandræðum með að nota hann eða finna það sem ég leita að, þá er það oft þannig fyrir hinn almenna borgara sem ætlar að kynna sér eitthvert mál að hann áttar sig ekki á því hvernig hlutirnir eru settir upp. Þar af leiðandi áttar hann sig ekki á því hvernig verkfærið virkar. Það er vandamál sem ég held að verði aldrei leyst að fullu.

En ég fullyrði hins vegar að því meira sem við reynum að leysa það að fullu og því auðveldara sem við gerum borgaranum að kynna sér efni stjórnsýslunnar, þeim mun auðveldara á hinn almenni borgari, í fleirtölu reyndar, með að veita yfirvöldum aðhald í hvers kyns formi, hvort sem það er í formi atkvæðis eða orðræðu, ábendinga, fyrirspurna eða annars. Mér þykir því mjög mikilvægt að hafa þetta í lagi. Mér finnst enn fremur að það eigi að vera meginreglan. Mér finnst að það eigi að vera algjört grundvallaratriði, (Forseti hringir.) enda er að mínu mati slíkur tónn undirliggjandi í stjórnarskrá landsins.