145. löggjafarþing — 76. fundur,  16. feb. 2016.

Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað.

237. mál
[18:31]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Já, við erum alveg örugglega sammála um að minnsta kosti inntakið í þessu frumvarpi sem er það að reglur, hverju nafni sem þær nefnast, eigi að vera aðgengilegar í endanlegri mynd, eins og þær eru.

Hér voru nefndar reglur. Stjórnvaldsfyrirmæli geta borið ýmis heiti. Reglugerðir eru auðvitað langalgengasta heitið. Reglur eru líka eitt form á stjórnvaldsfyrirmælum. Þær eru alltaf birtar. Sama má segja um auglýsingar og einhvern tímann í fyrri tíð voru stundum sett fyrirmæli. Allt er þetta birt undir samheitinu reglugerðir. Annað á hins vegar við um einstaka reglur einstakra stofnana eða innanhússreglur. Það getur stundum orkað tvímælis og getur verið eðlilegt að reglur gildi um birtingu slíkra reglna. Það er kannski utan við þetta efni, ef ég skil frumvarpið rétt.

Ég vil beina því til hv. allsherjarnefndar sem fær þetta mál til umfjöllunar að skoða líka álitaefni varðandi birtingu löggjafar og breytingu á lögum og hvort ekki megi einhvern veginn koma því fyrir og ef þess þarf, setja þá í lög að lög skuli uppfærð og lagasafnið skuli uppfært svo fljótt sem verða má.

Það vantar kannski í þetta frumvarp einhvern tímafrest. Það þarf að tryggja það þannig að fresturinn sé ekki svo langur. Ég tel til dæmis að lagasafnið sé uppfært allt of sjaldan. Þetta þarf að vera miklu örar ef hinn almenni borgari og fagaðilar sem vinna með löggjöfina (Forseti hringir.) eiga að geta fylgst með breytingum sem eru gerðar frá degi til dags oft á tíðum.