145. löggjafarþing — 76. fundur,  16. feb. 2016.

aukinn stuðningur vegna tæknifrjóvgana.

20. mál
[18:57]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Mig langaði aðeins að taka þátt í þessari umræðu þar sem ég er líka einn af flutningsmönnum málsins. Það var svo snubbótt síðast þegar málið var flutt að flutningsmaður var stoppaður í pontu til að koma málinu til nefndar þar sem þingfundi var að ljúka.

Ég tel að málið sé afskaplega gott, í sjálfu sér nauðsynlegt, og eflaust þekkja mörg okkar í kringum sig fólk sem hefur barist við ófrjósemi og hefur þurft að glíma við einmitt það sem þetta frumvarp tekst fyrst og síðast á við, þ.e. fjárhagslegan kostnað við það að fara í gegnum slíkar meðferðir.

Mig langar aðeins að fara ofan í það þegar talað er um að afleiðingar ófrjósemi séu margvíslegar. Hér er meðal annars talað um sálarlíf þeirra sem þjást af ófrjósemi. Auðvitað getur þetta átt við um bæði karla og konur. Hér hefur þetta meira snúið að konum í sjálfu sér þó að talað sé bæði um eggfrumur og sæði.

Gert var lokaverkefni um reynslu nokkurra kvenna sem höfðu ítrekað gengið í gegnum slíkar meðferðir, ýmist tæknifrjóvgun eða glasafrjóvgun. Þar var meðal annars komið inn á sálgæslu sem fólk taldi sig oft þurfa á að halda. Það kemur fram í lögum nr. 55/1996 að heilbrigðisstofnun sem fær leyfi til að framkvæma tæknifrjóvgun sé skylt að bjóða þeim sem sækja um tæknifrjóvgunarmeðferð og væntanlegum gjöfum faglega ráðgjöf sérfræðinga, svo sem félagsráðgjafa eða sálfræðinga. Hjá konunum í lokaverkefninu kemur fram að ráðgjöfinni sé töluvert ábótavant. Höfundur veltir fyrir sér hvort túlkunin á því að bjóða þjónustu þýði gjaldfrjáls þjónusta eða hvort hún eigi að vera innifalin í kostnaði meðferðarinnar. Það er ekki þannig. Sá sem vill þiggja slíka aðstoð þarf að borga fyrir hana. Það kemur líka fram að örfáum var boðin ráðgjöf eða réttar sagt bent á hana. Einhverjir höfðu rekið augun í nafnspjöld á biðstofunni þannig að það er hægt að rökstyðja að lögunum hafi verið framfylgt hvað þetta varðar af þeirra hálfu.

Þegar við erum farin að tala um eins dýrar meðferðir og hér er um að ræða, það kostar líka að fara til félagsráðgjafa og sálfræðinga, er alls ekki gefins, hefur fólk jafnvel ekki tök á að sækja sér þessa þjónustu. Hins vegar töldu þeir sem unnu lokaverkefnið að það hefði skipt gríðarlega miklu máli að hafa stuðning við að fara í gegnum þetta ferli.

Ráðherra er með þessari þingsályktunartillögu ætlað að endurskoða greiðsluþátttöku ríkisins vegna tæknifrjóvgunarmeðferðar og auka hana sem einhverju nemur. Það er skrýtið, og ég veit ekki alveg af hverju það var valið, að fyrsta og fimmta meðferð séu ekki niðurgreiddar. Það eitt og sér hlýtur einmitt að hafa orðið ástæða þess að það dregur úr þessu. Eiginlega getur ekki annað verið. Þá spyr maður sig: Var það ætlunin? Var ætlunin sú að draga úr þessari þjónustu og hvers vegna þá?

Mér finnst þær spurningar hanga í loftinu. Eins og kemur fram í greinargerðinni hefur barneignum fækkað per konu og ég held að við Íslendingar höfum alveg færi á að fjölga okkur og landið hefði bara gott af því þar sem þjóðin eldist mjög hratt. Eftir að málið kom fram í fyrra hef ég verið að velta þessu fyrir mér og játa að ég hef ekki kannað neitt sérstaklega hvers vegna þessi ákvörðun var tekin að öðru leyti en hreinlega með beinan fjárhagslegan sparnað að leiðarljósi. Það er eiginlega það eina sem mér dettur í hug.

Eins og framsögumaður rakti ágætlega er þessu misjafnlega farið á Norðurlöndunum og annars staðar í kringum okkur. Við verðum bara að ákveða hvað við viljum gera. Það er miður að þingmenn hafi ekki aðgang að einhverjum til að kostnaðarmeta, til að gera áætlanir miðað við undanfarin ár eða áratug eða hvað við viljum fara langt aftur, um hversu mikinn viðbótarkostnað gæti verið að ræða fyrir ríkið. Það er það sem þetta stoppar á og eins og með mörg önnur þingmannamál hef ég áhyggjur af að þetta fari inn í nefnd og verði bara þar.

Það fyrirkomulag sem hefur verið framlengt ár eftir ár er ekki eitthvað sem við getum búið við. Það er nauðsynlegt að ráðherra málaflokksins taki þetta upp á sína arma og ákveði hvernig á að hafa þetta til framtíðar. Mikill kostnaður fellur til fyrir utan beinan kostnað við meðferðina sem slíka. Það eru gjarnan tveir aðilar, þó ekki alltaf, sem þurfa jafnvel að koma utan af landi langar vegalengdir. Það er ekki bara ferðakostnaðurinn, það er líka gistikostnaður og ýmislegt fleira sem til fellur fyrir fólk sem býr þá ekki við jafnræði hvað það varðar. Því má líka velta fyrir sér hvort það eigi frekar að jafna, hvort það eigi að greiða meira fyrir hverja meðferð eða eitthvað slíkt, það má örugglega útfæra þetta á marga vegu. Ég held að klárlega sé verið að mismuna einstaklingum eftir tekjum eins og regluverkið okkar er í dag. Þegar fólk er búið að reyna mörgum sinnum og ákveður að þetta sé orðið gott, það sé ljóst að þessar aðferðir dugi ekki, og hefur hug á að ættleiða er það kannski búið að fara með það mikla fjármuni í þessar meðferðir að það kemst ekki inn á lista til að ættleiða barn vegna þess að fjárhagsstaðan skiptir þar gríðarlega miklu máli. Það er að mörgu að hyggja í þessu máli.

Ég tek undir þetta með sæðisskammtana sem keyptir eru, ég hafði ekki velt því neitt sérstaklega fyrir mér fyrr en málið var lagt hér fram í fyrra að eitthvað væri athugavert við það. Í pínulitlu samfélagi er eiginlega ekki hægt að hafa þetta svona. Það er nokkuð sem við þurfum að kanna í framhaldinu, þ.e. hvernig þessum málum hefur verið háttað, alveg eins og við þurfum að kanna hvort orðið hafi marktæk breyting á aðsókn af landsbyggðinni í þessar meðferðir umfram aðsókn af stórhöfuðborgarsvæðinu.

Í framhaldinu þarf að svara fullt af siðferðislegum spurningum og líka út frá jafnræði. Nú fer málið til nefndar og ég vona svo sannarlega að það komist þar á dagskrá til að hægt verði að taka inn gesti þannig að við getum mögulega fengið svör við þeim spurningum sem hér er velt upp og öðrum sem vakna þegar fleiri koma að því að ræða þessi mál. Eins og hér kemur fram skiptir þetta marga máli í samfélaginu. Það eru ótrúlega margir sem reyna nú þegar að nýta sér þessa þjónustu þrátt fyrir að hafa jafnvel tæpast efni á því eftir eitt, tvö skipti eða jafnvel komast ekki af stað.