145. löggjafarþing — 77. fundur,  17. feb. 2016.

störf þingsins.

[15:06]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Reglulega berast okkur og samfélaginu öllu tíðindi af því, mjög sorgleg tíðindi, að feðrum, yfirleitt feðrum, er meinað að hitta börnin sín; jafnvel árum saman fá þeir ekki tækifæri til að hitta börnin sín. Það stendur alveg skýrt í barnalögum að báðir foreldrar hafa rétt á því að umgangast börnin sín og börnin hafa rétt á því, og það er lykilatriði, að umgangast báða foreldra. Foreldrum ber reyndar skylda til að umgangast börnin sín.

Mig langar að freista þess að setja þessi mál á dagskrá hér í þinginu vegna þess að við höfum mjög oft, blessunarlega, skiljanlega og nauðsynlega, talað um kynbundið ofbeldi. Mér finnst þessar tálmanir, þessar hindranir á rétti barna og feðra til að umgangast hvert annað, ekki vera annað en það, kynbundið ofbeldi. Mér finnst mjög mikilvægt að við förum að ræða þessi mál undir þeim hatti. Blessunarlega höfum við ákveðið að grípa til alls konar aðgerða gegn ýmiss konar kynbundnu ofbeldi og reyna að útrýma því. Mér finnst mikilvægt að við setjum þessa tegund af ofbeldi, þar sem feðrum er meinað að hitta börnin sín, undir nákvæmlega þann sama hatt. Þetta er ekkert annað en það. Þetta er ofbeldi sem beinist aðallega gegn feðrum og eins og svo oft er með kynbundið ofbeldi þá bitnar þetta ofbeldi á börnunum. Það vill svo til að þetta er algjörlega skýrt í barnalögum.

Samfélagið á að hætta að tipla á tánum í kringum þessi dæmi. Það er oft sagt að þetta séu flókin dæmi, það sé erfitt að fara inn í þau o.s.frv. Vissulega eru þau oft flókin, en hins vegar verður að horfast (Forseti hringir.) í augu við það grundvallaratriði að þetta er ofbeldi, (Forseti hringir.) þetta er brot á réttindum barna og yfirleitt feðra og við verðum að taka á þessu sem slíku.


Efnisorð er vísa í ræðuna