145. löggjafarþing — 77. fundur,  17. feb. 2016.

störf þingsins.

[15:10]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Herra forseti. Í gær bárust okkur þau gleðitíðindi að sýrlensku fjölskyldunni sem dvalist hefur hér á landi síðan á síðasta ári var veitt dvalarleyfi af mannúðarástæðum. Við fengum að sjá í fréttum gærdagsins gleðina og léttinn sem fjölskyldan upplifði þegar henni var tilkynnt þessi niðurstaða, en eins og flestum er kunnugt stóð til að vísa þeim úr landi á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Það voru samt ekki allar fréttir gærdagsins hvað varðar hælisleitendur jafn gleðilega. Hér á ég við þær fréttir að til stendur að vísa úr landi Nígeríumanninum Martin Omolu sem dvalið hefur hér í fjögur ár, sem er sá tími sem hann hefur mátt þola að bíða eftir niðurstöðu í máli sínu. Hann er ekki einn um að vera í þessari hörmulegu stöðu þar sem tveimur öðrum hælisleitendum, þeim Eze Okafor, sem einnig er Nígeríumaður og hefur dvalið hér í fjögur ár, og Christian Boadi, sem er Ganamaður og hefur verið hér í þrjú ár, hefur verið synjað um dvalarleyfi. Standa þeir frammi fyrir brottvísun vegna Dyflinnarreglugerðarinnar þrátt fyrir að hafa bráðabirgðadvalarleyfi fram í júní. Enginn fyrirvari var gefinn, bara eitt símtal og þeim er hent úr landi. Það þarf að vera traust gagnvart stofnunum og framkvæmd í þessum málaflokki. Nú er ekkert traust til staðar. Lög og reglur og framkvæmd sem byggjast á mannúð og ábyrgð eru það sem þessi mál eiga að snúast um.

Margir spyrja sig hvort ákvarðanir stjórnvalda um að veita leyfi eða ekki ráðist fyrst og fremst af því hversu mikil viðbrögð mál fái í fjölmiðlum og frá almenningi. Framkvæmdin virðist tilviljanakennd og háð geðþótta. Þeir sem eru svo heppnir að um mál þeirra er fjallað í fjölmiðlum og á Facebook-síðum eiga miklu meiri möguleika en aðrir og ekki spillir að vera fyrir með fjölskyldumyndir í fjölmiðlum. Stjórnvöld verða að hysja upp um sig og breyta aðferðafræði í þessum málum og leggja fram frumvarp um ný útlendingalög strax þar sem stendur til að bæta úr þessu. Við eigum að byggja það á mannúð og víðsýni gagnvart öllum en ekki bara sumum og sýna þjóðinni það í verki. Og hættum, herra forseti, að taka svona hræðilegar ákvarðanir eins og teknar voru í gær. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)


Efnisorð er vísa í ræðuna