145. löggjafarþing — 77. fundur,  17. feb. 2016.

störf þingsins.

[15:19]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég ræddi hér í störfunum þingsins í gær um húsnæðismál og vitnaði þar meðal annars í ágætisúttekt og greiningu frá Samtökum iðnaðarins sem telja mikla uppsafnaða þörf fyrir minni og ódýrari íbúðir til að sinna leigumarkaði og/eða til handa ungu fólki sem hyggur á fyrstu kaup. Hv. þm. Helgi Hjörvar greip þessi skilaboð á lofti og setti fram kenningu um að það væri mögulega lausnin á vanda sem væri of hátt vaxtastig, þ.e. að byggja þá bara minna, það væri svarið. Mér fannst athugasemdin býsna athyglisverð í samhengi við lánafyrirkomulag sem neytendur búa við á húsnæðismarkaði. Það má nefnilega snúa þessu við og spyrja hvort hið verðtryggða lánafyrirkomulag þar sem verðtryggingunni er bætt við höfuðstólinn og dreift á langan lánstíma, eða 40 ár, deyfi ekki kostnaðarvitund lántaka og hafi leitt til þess að fólk kaupi í raun og veru stærra og dýrara en forsendur eru til.

Svo má líka velta því fyrir sér hvort hugsunarháttur nýrrar kynslóðar sé ekki breyttur þegar kemur að húsnæði, fermetrum og þeim kostnaði sem það vill í raun setja í aukafermetra.

Um eitt erum við hv. þingmaður þó sammála; lánafyrirkomulaginu viljum við breyta og kalla verðtrygginguna sínu rétta nafni, nefnilega breytilega vexti þar sem lánveitandinn metur raunvextina og þann raunkostnað sem hann býður lántakanum. Í slíku lánaumhverfi er líklegra að lögmál framboðs og eftirspurnar á þessum markaði virki betur, að kostnaðarvitund fólks verði meiri þar sem kostnaður og gagnsæi kostnaðar liggur fyrir. Fólk tengir þá frekar kostnaðinn við hvern fermetra sem það fjárfestir í og fer varlegar í sakirnar í fyrstu fjárfestingu. Það sem skiptir öllu máli hér er að (Forseti hringir.) við náum sameiginlegum markmiðum, þ.e. að ná vaxtastigi niður.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna