145. löggjafarþing — 77. fundur,  17. feb. 2016.

störf þingsins.

[15:26]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Vestfirðir hafa lengi verið aftarlega á merinni varðandi afhendingaröryggi á rafmagni og hafa menn barist fyrir að fá hringtengingu rafmagns og ljósleiðara. Í dag eru framleidd um 10 megavött í Mjólkárvirkjun á Vestfjörðum og síðan verða menn að treysta á það að byggðalínan haldi. Oftar en ekki þarf að keyra dísilrafstöðvar þegar rafmagnið fer.

Lengi hefur verið í bígerð að skoða möguleika á að virkja Hvalá í Ófeigsfirði á Ströndum (Gripið fram í: Now you´re talking.) Nú er það verkefni í fullri vinnu og skoðun. Það verkefni er nota bene í nýtingarflokki, en önnur verkefni hefur núverandi ríkisstjórn verið að reyna að draga út úr verndarflokknum og verið að krukka í. Þessi virkjunarkostur er sem sagt í nýtingarflokki og mundi framleiða um 55 megavött og hafa gífurleg áhrif, bæði varðandi möguleika á hringtengingu rafmagns og til að hverfa frá notkun dísilstöðva og eins til að byggja upp iðnað sem nota mundi meiri orku en er í boði í dag. Þá er ég ekki að tala um stóriðju heldur smærri verkefni sem henta inn í það samfélag sem Vestfirðir eru þar sem þar er auðvitað ekki mikið landrými. Vestfirðingar vilja skilgreina sig sem stóriðjulaust svæði. Menn eru að skoða möguleika á hvar tengivirki ætti að vera og stendur þar upp á stjórnvöld að styðja þá vinnu, að fá niðurstöðu í því efni, því að það hefur staðið í mönnum (Gripið fram í.) hve mikill kostnaður yrði við að tengja orkuna sem framleidd yrði í Hvalá við núverandi kerfi. Nú er það í höndum stjórnvalda að hraða því verki.


Efnisorð er vísa í ræðuna