145. löggjafarþing — 77. fundur,  17. feb. 2016.

störf þingsins.

[15:31]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Hér hefur verið áhugaverð umræða um bleika skattinn sem hefur fengið mig til að hugsa enn og aftur um mátt neytenda, sérstaklega kvenna, í hagkerfinu. Ég hef verið að rifja upp bók sem ég las fyrir margt löngu um áhrif kvenna sem neytenda þar sem meðal annars var tekið dæmi um að konur hafa alveg ótrúlega mikil áhrif á það hvaða bíll er keyptur á heimilið. Karlarnir halda raunverulega að þeir séu að velja bílinn en það er vegna þess að konurnar láta karlana halda að þeir hafi tekið ákvörðunina.

Ég er ekki að segja að það séu ekki einhverjir karlar þarna úti, og hugsanlega líka hér inni miðað við skelfingarsvipinn á nokkrum hv. þingmönnum, sem raunverulega ráða því hvaða bíll er keyptur en mér finnst þetta skemmtilegt dæmi og heillandi að hugsa til þess hvað konur geta raunverulega gert sem neytendur, hvernig þær gætu raunverulega breytt heiminum.

Máttur neytenda í heild getur verið mjög mikill og við erum ekkert endilega að nýta hann vel á Íslandi. Kannski einstaka sinnum þegar Mjólkursamsalan gengur fram af okkur kaupum við Arla-vörur um hríð.

En ég hef verið að hugsa þetta í tengslum við sölu Arion banka á hlut í Símanum þar sem einhverjum vildarvinum var í rauninni seldur hann á lægra verði. Það sem gerir þetta mál sérlega grágruggugt í mínum huga er ekki síst að einhverjir yfirmenn blönduðust inn í þessi mjög svo vafasömu hlutabréfakaup. Af hverju ættu yfirmennirnir ekki að kaupa í opnu útboði eins og allir aðrir?

Það er líka áhugavert að það eru allt karlar sem eru þarna að skipta á milli sín einhverjum kökum.

Í gær hitti ég konu sem var svo misboðið út af þessu máli að hún hafði fyrir því að skipta um símafyrirtæki. Hún sagði að það væri mikið vesen en ef maður vildi raunverulega sýna viljann í verki yrði maður að gera svona.

Annars breytist ekki neitt og ég velti fyrir mér, virðulegi forseti, þar sem ég stend hér: Hvað í fjáranum er ég enn þá að gera í viðskiptum við Símann?


Efnisorð er vísa í ræðuna