145. löggjafarþing — 77. fundur,  17. feb. 2016.

sjúkratryggingar og lyfjalög.

228. mál
[15:46]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Eins og fram kom stend ég að afgreiðslu málsins með fyrirvara. Sá fyrirvari helgast af því að ég er enginn sérstakur aðdáandi þess fyrirkomulags sem þarna er á ferðinni eða þeirrar þjónustutilskipunar sem slíkrar sem hér er verið að gera breytingu á innleiðingu á sem er auðvitað liður í því að færa velferðarþjónustuna nær markaðstorginu.

Hér er hins vegar á grundvelli góðrar samstöðu sem skapaðist í velferðarnefnd valin varfærin leið við innleiðinguna og hagsmunir íslensks heilbrigðiskerfis og almannahagsmunir settir í öndvegi. Með það er ég ákaflega ánægður.

Ég stend því að og flyt breytingartillöguna og mæli að sjálfsögðu með því að hún verði samþykkt. Eftir atvikum geta menn svo gert það við frumvarpið sem þeim sýnist. Ég tel að með þessu högum við innleiðingunni á þann hátt að við nýtum til fulls möguleika okkar á að gera það með tilliti til íslenskra aðstæðna.

Vonandi verður þetta okkur svo hvati til þess að vinna niður biðlista og búa almennt svo vel að heilbrigðisþjónustunni í landinu að það verði engin sérstök þörf fyrir fólk að sækja þjónustu til útlanda.