145. löggjafarþing — 77. fundur,  17. feb. 2016.

þörf á fjárfestingum í innviðum.

[16:03]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Guðmundi Steingrímssyni fyrir að vekja máls á þessu. Þessi málefni, opinberar fjárfestingar, voru til umræðu í tengslum við afgreiðslu fjárlaga og líka við afgreiðslu tekjuhliðar fjárlagafrumvarpsins í haust. Það er staðreynd sem allir viðurkenna, að opinber fjárfesting er í sögulegu lágmarki og langt undir meðaltalinu. Við verðum líka að horfast í augu við að það eru ákveðin þenslumerki á lofti í efnahagslífinu þannig að mikilvægt er að við skoðum opinbera fjárfestingu í tengslum við önnur teikn í efnahagslífinu. Það er mín skoðun, sem ég fór yfir í tengslum við afgreiðslu þessara mála, að betur hefði farið á að fara ekki í skattalækkanir, sem eru þensluhvetjandi, heldur horfa fremur til opinberrar fjárfestingar sem ekki er vanþörf á að byggja upp á þessum tímum. Þar verðum við auðvitað líka að skoða atvinnuvegafjárfestingu. Hv. þm. Guðmundur Steingrímsson, málshefjandi, vitnaði til umsagnar Samtaka iðnaðarins um ýmsar forsendur fjárlagafrumvarpsins. Þar er lýst verulegum áhyggjum af þessu máli sem einum helsta veikleika íslensks efnahagslífs.

Eins og hæstv. ráðherra segir klárlega er vandlifað og það þarf að velja leiðir. Það liggur alveg fyrir að ekki er hægt að gera allt í einu. Það er til dæmis ekki hægt að lækka skatta, viðhalda rekstri og ráðast í mikla opinbera fjárfestingu. Ég er ósammála þeirri leið sem hæstv. ríkisstjórn fór og tel að við verðum að bregðast við uppsafnaðri þörf í opinberum fjárfestingum og menn hafa nefnt ýmis mjög mikilvæg verkefni. Við erum búin að vera að ræða samgöngumálin. Hér hefur verið nefnd hola íslenskra fræða. Kallað er eftir því að ráðist verði í að byggja yfir handritin okkar sem eru á heimsminjaskrá UNESCO. Við ræðum ferðaþjónustuna nánast dag hvern sem er stærsti útflutningsatvinnuvegur þjóðarinnar. Við sinnum ekki innviðum þess atvinnuvegar eins og við ættum að gera. Tækifærin eru svo sannarlega til staðar til að gera betur í þessu máli en það verður ekki bæði sleppt og haldið. Við verðum auðvitað að afla tekna (Forseti hringir.) til að geta bætt í opinbera fjárfestingu.