145. löggjafarþing — 77. fundur,  17. feb. 2016.

þörf á fjárfestingum í innviðum.

[16:08]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Mig langar til að byrja á að þakka hv. þm. Guðmundi Steingrímssyni fyrir að vekja máls á þessu. Hverjum manni ætti að vera ljóst að innviðir Íslands eru að grotna niður. Ég tel það ekki einhverja einskiptisaðgerð að laga innviði okkar heldur er þetta langhlaup, þetta er nokkuð sem við þurfum að byggja upp jafnt og þétt og það hefur ekki verið upp á teningnum. Svo ég taki dæmi af Vestfjörðum hefur þar verið lofað nýjum vegum frá því áður en ég fæddist en ég er samt enn að keyra sömu vegina. Það er kannski alveg kominn tími til að fara að endurskoða það hvernig við metum í hvaða innviði þarf að setja fé á hverjum tíma fyrir sig. Þetta er ekki eitthvað sem gerist á einni nóttu, heldur á að gerast á næstu áratugum. Við þurfum að byrja og við þurfum að vera með langtímaplan. Það þýðir ekkert að vera endalaust að skipta um skoðun.

Kannski er ástæðan sú að íslenskt hagkerfi hefur ekki verið í stakk búið til að standa í svona miklum framkvæmdum, það er ýmist of mikil þensla, of mikil útrás eða of mikil kreppa til að gera nokkurn skapaðan hlut. Stundum þarf bara að taka sig til og gera hlutina. Það þarf að laga vegina. Það þarf að koma í veg fyrir og laga mygluna á sjúkrahúsum landsins. Það þarf að efla löggæslu. Við erum ekki með öruggt land þegar kemur að ferðaþjónustu sem er tekjulind sem við þurfum að taka meira af í raun og veru, þ.e. ferðamennirnir, þar sem fleiri þúsund manns eru núna á vegum landsins dag eftir dag og nýta innviði okkar. Það er bara alveg sjálfsagt mál að reyna að fá eitthvað þaðan.

Ég held að þetta sé eitthvað sem við þurfum að vinna saman að til langs tíma. Við erum ekki búin að gera það í fortíðinni þannig að núna snýst þetta um að gera það til framtíðar.