145. löggjafarþing — 77. fundur,  17. feb. 2016.

þörf á fjárfestingum í innviðum.

[16:13]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Það er alveg ljóst að fjárfestingarhlutfall í innviðum hefur verið of lágt en við skulum fara aðeins yfir þær kröfur sem kallað er eftir auknum framlögum til að mæta. Undirskriftalistar sem hér er vitnað í varðandi heilbrigðiskerfið eru ávísun upp á nálægt 50 milljarða. Í samgöngum, fjarskiptaleiðum og höfnum erum við að kalla á um 20 milljarða á ári sem við getum auðveldlega bætt við á næstu árum. Síðan getum við bætt við í menntamálin, löggæslumálin, málefni Landhelgisgæslu, þróunarsamvinnumál, dreifikerfi raforku, hælis- og innflytjendamál. Við getum auðveldlega farið upp í 100 milljarða. Ef allar þessar kröfur gengju eftir færum við auðveldlega með það að bæta við okkur 100 milljörðum á ári.

Hvert er svar þeirra sem tala hæst í þessum kröfukór? Svar þeirra er: Ja, þið hafið ekki hækkað veiðigjöldin. Jú, þar liggja kannski 5 milljarðar í einhverjum deilum á milli manna. Þið lögðuð niður hátekjuskattinn. Já, þar eru aðrir 5 milljarðar sem reyndar allir flokkar ætluðu að tryggja fyrir kosningar. Þið tókuð orkuskattinn af. Já, hann var settur á með samkomulagi sem var síðan svikið og við létum hann renna út alveg eins og fyrri ríkisstjórn hafði ætlað sér.

Síðan er kvartað yfir því að við séum að lækka skatta. Það er talað um að við séum að lækka skatta á hátekjufólk. En skyldu tollar, vörugjöld og lækkun tekjuskatts á millistéttir í landinu sem eru aðrir 5 milljarðar flokkast undir það? Nei, ég held ekki, virðulegi forseti. Þetta eru 20 milljarðar upp í þessa 100. Og það er önnur hlið á peningnum og hún er spurningin: Hvernig ætlum við að afla tekna til að gera þetta? Hvernig hefur sú umræða gengið hér í þinginu þegar hið óljósa er uppi í þeim málum?

Já, hér hlær hv. þm. Róbert Marshall. Það er ekki nema von, ábyrgðarleysið á þeim bæ er algjört og hefur aldrei verið öðruvísi í hans þingstörfum hér, algjört ábyrgðarleysi og ómálefnalegur málflutningur. (Gripið fram í.)Það er bara hlegið þegar þessi umræða er tekin (Forseti hringir.) og mál eru hér sett í málþóf og slegin út af borðinu.

Ég held, virðulegur forseti, að það sé tímabært fyrir þingið að axla ábyrgð sína í því að ræða það í fullri alvöru hvernig við ætlum að stækka kökuna í þessu samfélagi þannig að ekki þurfi 11% af einhverri köku í heilbrigðismálin í framtíðinni, að 8% sneiðin verði að það stórri köku að hún dugi til þess að loka málum þar og annars staðar. (Gripið fram í.)