145. löggjafarþing — 77. fundur,  17. feb. 2016.

þörf á fjárfestingum í innviðum.

[16:16]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Það er ágætt að þessi umræða skuli eiga sér stað hér á Alþingi. Það er allt of sjaldan sem við ræðum þessi mál, innviðastyrkingu og annað. Í tveggja mínútna ræðu er ekki hægt að taka nema einn eða tvo málaflokka. Ég ætla að snúa mér aðeins að samgöngumálum.

Það er staðreynd að allar þær samgönguframkvæmdir sem eru í gangi í dag voru ákveðnar í tíð síðustu ríkisstjórnar og hófust þá. Það hafa engar nýjar samgönguframkvæmdir hafist í tíð þessarar ríkisstjórnar. Hér hefur verið talað um samgönguáætlun sem hefur komið fram en dagað uppi.

Virðulegi forseti. Hér hefur verið rætt um litlar innviðafjárfestingar en ég vil aðeins geta þess að á erfiðleikatímum okkar 2007–2010 voru veittir 132 milljarðar kr. til samgönguframkvæmda í innviðastyrkingar við ýmsar framkvæmdir, og við sjáum vel hvernig þær virka í dag, bæði til að stækka atvinnusvæði og eins að skapa meira umferðaröryggi og auka jafnvel frekar samvinnu sveitarfélaga. Það er engin spurning, virðulegi forseti, að það þarf að gefa í hvað þetta varðar, en það þarf að forgangsraða og það þarf að huga að þenslu.

Það sem ég nefndi í tíð síðustu ríkisstjórnar var líka átak í atvinnusköpun. Þó að það væri ekki aðalatriðið er mikilvægt að hafa það í huga. Þess vegna segi ég fyrir mitt leyti: Ég er mjög hrifinn af því og er mjög sáttur við það að inn í innviðafjárfestingu er sett, ef svo má að orði komast, nýbygging Landspítala. Við eigum það svo sannarlega skilið, Íslendingar, að fara að komast út úr húsi þar sem starfsmenn veikjast út af myglusveppi og loka þarf deildum, við skuldum þjóðinni það. Um þetta er rík samstaða hér á Alþingi eins og kom fram við samþykkt þingsályktunartillögu um byggingu Landspítala við Hringbraut. Það var ánægjuefni. En við þurfum líka að huga að þessum þáttum sem eru samgönguframkvæmdir vegna þess að á nokkrum stöðum úti á landi eru þær enn (Forseti hringir.) mjög lélegar. Þar er það ekki spurning hvort menn komast milli staða A og B á ákveðnum tíma, eins og oft er hér á höfuðborgarsvæðinu, heldur spurning um hvort fólk kemst yfir höfuð áfram eða situr fast.