145. löggjafarþing — 77. fundur,  17. feb. 2016.

þörf á fjárfestingum í innviðum.

[16:23]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þetta umræðuefni en vitaskuld er ekki hægt að fara á tveimur mínútum mjög vandlega yfir hlutina í svo ofboðslega viðamiklum málaflokki.

Innviðirnir á Íslandi þurfa að stækka hraðar núna en áður vegna þess að hér höfum við núna ógrynni af ferðamönnum sem skapa álag á löggæslu, heilbrigðiskerfi, samgöngur og fleiri kerfi. Þess vegna er mikilvægt að við höldum í þegar kemur að því. Að mínu mati eru engir innviðir Íslands mikilvægari en heilbrigðiskerfið. Því ber að fagna að einn daginn komi nýr Landspítali og vonandi að heilbrigðiskerfið eflist almennt þó nokkuð enda er það mikið í umræðunni núna og það að gefnu tilefni.

Samgöngur víða úti á landi eru í vondu ásigkomulagi eins og frægt er orðið, ekki síst á Vestfjörðum. Annars staðar, eins og á Austfjörðum, eru á ferð annarrar tegundar samgönguvandamál, eins og vandamál í kringum netmál. Þótt vissulega hafi innanríkisráðherra skipað starfshóp þann 5. febrúar 2014 til að gera tillögur að útfærslu á alþjónustukvöðum í fjarskiptum er alveg þess virði að nefna í kjölfar ræðu hv. þm. Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur að það er ýmislegt í innviðum Íslands sem við getum ekki látið einkaaðilum eftir. Netmálin bera þess hvað helst vitni þar sem mörg svæði eru metin þannig að einkaaðilar geti sinnt þjónustunni en svo gera þeir það ekki. Þá getur ríkið ekki gripið inn í.

Það eru oft þannig vandamál, í það minnsta þegar kemur að netmálunum, sem við verðum að reyna að leysa, ekki einungis með auknum fjármunum, þó þeim líka, heldur einnig með því að takast á við slíkar áskoranir.

Á seinustu sekúndunum get ég ekki annað en minnst á að okkur barst bréf frá Austfjörðum með kvörtun undan því að fólk þurfi að keppa um þessar fjárveitingar, þessar 500 milljónir sem voru nefndar áðan, en ég hef því miður ekki tíma til að lýsa því nánar (Forseti hringir.) eins og fram hefur komið.