145. löggjafarþing — 77. fundur,  17. feb. 2016.

þörf á fjárfestingum í innviðum.

[16:25]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir umræðuna. Mér finnst þetta einfaldlega eitt stærsta úrlausnarefni stjórnmálanna, hvernig á að koma í veg fyrir að innviðir samfélagsins rýrni. Þeir eru að því. Mér finnst eitt gott við þessa umræðu, allir átta sig á því að opinber fjárfesting er of lítil. Hæstv. ráðherra taldi upp fjölmörg ágætisdæmi um hvernig innviðirnir eru að rýrna og hvernig fjárfestingarþörfin hefur safnast upp í stóru sem smáu, í vegakerfinu, á Þingvöllum, í heilbrigðiskerfinu, hvert sem litið er. Þetta er æpandi, þetta er augljóst, en ef við ætlum að stunda ábyrg stjórnmál getum við ekki látið þar staðar numið. Nú verðum við að hugsa: Hvað svo?

Eitt er alveg augljóst, held ég, alveg kristaltært. Það er ekki hægt að fjármagna hallalausan rekstur á ríkissjóði með því að fresta framkvæmdum á viðhaldi. Það er ekki sjálfbært. Það kemur niður á okkur. Það þýðir til langs tíma að samfélagið rýrnar að gæðum. Við föllum um flokk, förum niður í 2. deild. Það er augljóst mál. Svona getum við ekki haldið áfram, það er kallað eftir því að talað sé í lausnum. Það er auðvitað alveg rétt að það er lítið svigrúm vegna þess að mjög miklar framkvæmdir einkaaðila eru í gangi. Þetta er gömul saga og ný á Íslandi. Hagkerfið ofhitnar alltaf. Er það vegna þess að við erum með of lítið hagkerfi? Er það vegna þess að við erum á of litlu myntsvæði? Eigum við kannski að ræða það hvort við gætum leyst þann vanda með því að verða aðilar að myntbandalagi Evrópu?

Væri kannski skynsamlegt að nota fjármuni sem koma inn með einni aðgerð, ekki í að fara í 100 milljarða skuldaleiðréttingar með mjög óljósum tilgangi og markmiðum, heldur nota þá frekar til að byggja upp innviðina til framtíðar? (Forseti hringir.) Eigum við að skoða hvernig við getum aukið tekjur okkar af auðlindum, t.d. orkuauðlindum í gegnum sæstreng og líka af sjávarauðlindum? Svo verðum við að gera áætlanir. Áætlanir fela líka í sér lausn, að sjá fyrir sér hvernig eitt getur tekið við af öðru þannig að menn sjái til lands í þessum efnum. Þar skilar ríkisstjórnin auðu, því miður, og það er átakanlegt.