145. löggjafarþing — 77. fundur,  17. feb. 2016.

samstarf Íslands og Grænlands.

23. mál
[16:30]
Horfa

Flm. (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar sem miðar að því að efla samstarf Íslands og Grænlands. Ég flyt þessa þingsályktunartillögu með átta manna harðsnúnum hópi einvalaliðs hv. þingmanna, þeirra Unnar Brár Konráðsdóttur, Katrínar Jakobsdóttur, Óttars Proppés, Birgittu Jónsdóttur, Helga Hjörvars, Valgerðar Bjarnadóttur, Kristjáns L. Möllers og Páls Vals Björnssonar.

Markmið með þingsályktunartillögunni er fyrst og fremst að styrkja tengsl Íslands og okkar góða granna í vestri, Grænlands, bæði til ábata fyrir þá og líka fyrir okkur. Sömuleiðis til þess að stofna til gagnvirkrar miðlunar á upplýsingum og reynslu tveggja þjóða sem hafa um langt skeið alið aldur sinn upp undir heimskautinu.

Það vill svo til að önnur þessara þjóða hefur á sögulegum mælikvarða fyrir tiltölulega skömmu síðan orðið sér úti um sjálfstæði. Það er ekki svo langt síðan að Íslendingar öðluðust sjálfstæði. Hin þjóðin, Grænland, er á góðri leið með að feta sig til aukinnar sjálfstjórnar og að lokum til sjálfstæðis.

Ég er þeirrar skoðunar, herra forseti, að við Íslendingar getum af reynslu okkar úr sjálfstæðisbaráttunni með auknu samstarfi á mörgum sviðum við Grænlendinga miðlað þeim af mikilvægri reynslu. Við höfum séð að Grænlendingar hafa tekið mjög afgerandi skref til sjálfstjórnar og skýrasta dæmið um það er auðvitað þjóðaratkvæðagreiðslan 2009 um sjálfstjórnarlögin sem 3/4 atkvæðisbærra manna í Grænlandi samþykktu.

Það má segja að þessi tillaga sé altæk. Hún tekur til aukinnar samvinnu við Grænlendinga svo að segja á öllum sviðum.

Megináhersla þingsályktunartillögunnar er þá kannski á fernt; á umhverfisvernd, á menningu og menntun og viðskipti og þjónustu. Það er sömuleiðis drepið á aðra hluti eins og samstarf á sviði fiskveiða og einnig á sviði samgangna og heilbrigðisþjónustu.

Í þessari tillögu er lagt til að Alþingi lýsi stuðningi við þau sögulegu skref sem okkar góða vina- og nágrannaþjóð hefur á síðustu áratugum tekið til aukinnar sjálfstjórnar og það er lagt til í 15 tölusettum liðum að tekið sé upp nánara samstarf við Grænland.

Ég ætla að leyfa mér, herra forseti, að drepa á í hraðri ferð þær tillögur sem hér er lýst:

Í fyrsta lagi er lagt til að unnið verði að því að gera samkomulag sem tryggi fullt tollfrelsi varðandi sölu á bæði varningi og þjónustu og jafnframt að rutt verði úr vegi öðrum hindrunum fyrir greiðum viðskiptum.

Í öðru lagi að örva tengsl á millum yngstu kynslóðanna, t.d. með sameiginlegum verkefnum á sviði leikskóla-, framhaldsskóla og reyndar líka allt upp á háskólastigið. Það er lagt til að Grænlandssjóður sem hefur lengi stutt samvinnu milli borgara og félagasamtaka í löndunum tveimur verði efldur til þess að greiða því förina.

Í þriðja lagi að auka samstarf háskóla landanna, t.d. með því að tryggja að háskólanemar geti fengið námskeið metin á milli háskóla beggja landa til lokaprófs og sömuleiðis að settur verði á stofn svolítill sjóður til þess að veita örvunarstyrki til sameiginlegra rannsóknarverkefna ungra fræðimanna þessara landa á sviði norðurslóða og jafnframt verði það hlutverk þessa sjóðs að gera kennurum við háskóla beggja landanna kleift að stunda kennslu um stundarsakir í hinu landinu.

Það er rétt að geta þess að frá því að tillagan var samin og fyrst flutt er kominn vísir að slíku samstarfi þar sem reyndar er farin sú leið, sem einnig er lögð til í útfærðri umfjöllun um þetta tiltekna atriði þingsályktunartillögunnar í greinargerð, að gera það í samvinnu við Færeyjar. Það er mjög jákvæð þróun.

Í fjórða lagi að koma á öflugu rannsóknasamstarfi milli umhverfisstofnunar Grænlands og íslenskra stofnana á sviði jökla, hafs, veðurfars, fiskstofna, umhverfis og raunar annarra fræðasviða sem segja má að tengist norðurslóðum.

Í fimmta lagi að bjóða til samstarfs á sviði sjávarútvegs í því augnamiði að auka afrakstur af sjávarauðlindum landanna.

Þá er rétt að geta þess að með greinargerð með tillögunni er bent á alveg stórmerka úttekt Íslenska sjávarklasans undir forustu Þórs Sigfússonar á grænlenskum sjávarútvegi. Þar kemur fram að þrátt fyrir að Grænlendingar hafi um langan aldur verið mjög framarlega á ýmsum sviðum sjávarútvegs er það eigi að síður staðreynd að Íslendingar hafa náð þannig tökum á vinnslu sinni og markaðssetningu að fyrir hvert kíló af sjávarafurðum sem Grænlendingar selja á markaði fá þeir töluvert minna en Íslendingar fyrir sams konar afurðir. Munurinn til dæmis á þorski nemur 123%, á grálúðu 78% og á úthafsrækju, þar sem segja má að Færeyingar séu markaðsráðandi, nemur 50%.

Ef það tækist í anda þessa liðar tillögunnar að auka virði grænlensks sjávarfangs til jafns við hið íslenska með samstarfi um þróun afurða, markaðssetningu og bætta meðferð á afla þá mundi það leiða til þess að grænlenskur sjávarútvegur fengi auknar tekjur sem samsvara nánast 3.000 millj. danskra króna. Til samanburðar er það nálægt þeim hlut sem danska landstjórnin greiðir til hinnar grænlensku. Þannig að ef hægt væri með samstarfi landanna tveggja að efla með þessum hætti það andvirði sem Grænlendingar ná úr hafinu mætti segja að þeir hefðu tekið stórt skref til aukinnar sjálfstjórnar í framtíðinni.

Í sjötta lagi er lagt til að stjórnvöldin beiti sér fyrir formlegu samkomulagi millum samtaka atvinnulífs landanna um tímabundið starfsnám hjá fyrirtækjum sem hafa hlutverki að gegna í þróun viðskipta millum þjóðanna.

Hér er óhjákvæmilegt að benda á hið frábæra frumkvæði sem sendiherra Íslands, sem raunar gegnir hlutverki ræðismanns í Nuuk, Pétur Ásgeirsson, hafði að því að koma á fót slíku samstarfi að tilhlutan forseta Íslands á sínum tíma og hefur leitt til þess að ungt grænlenskt fólk sem vinnur hjá fyrirtækjum sem tengjast samskiptum og viðskiptum við Ísland hefur komið hingað til náms um skamma hríð og aflað sér mikilvægrar starfsreynslu. Reynslan sýnir að þetta hefur leitt til mikilla og bættra tengsla á sviði fyrirtækjavensla sem aftur hefur leitt til greiðari viðskipta á millum þessara tveggja landa.

Í sjöunda lagi að taka frumkvæði að því að gera úttekt á mögulegri samvinnu á sviði læknis- og heilbrigðisþjónustu sem yrði síðan grundvöllur rammasamnings um stóreflt samstarf á því sviði.

Nú vek ég eftirtekt á því að sú ríkisstjórn sem ég sat í síðast gerði samkomulag árið 2009 sem hefur leitt af sér töluvert aukið samstarf á sviði heilbrigðisþjónustu milli landanna. Það er þannig að margir Grænlendingar þurfa að fara til Danmerkur til ýmissa flókinna aðgerða sem hægt væri að gera hér á landi og það liggur líka fyrir að landfræðilega er austurströndin einfaldlega þannig í sveit sett að héðan er best að sinna ýmissi þjónustu sem sá partur Grænlands sem er giska afskekktur þarf á að halda.

Í níunda lagi að efla samstarf og ráðgjöf á sviði vatnsaflsverkefna á Grænlandi. Íslendingar hafa raunar gegnt mikilvægu hlutverki við að hanna og byggja mannvirki á sviði vatnsaflsvirkjana.

Það eru miklar hugmyndir á Grænlandi um að nýta enn frekar stórar jökulelfir til þess að framleiða rafmagn og Grænlendingar sjálfir hafa auðvitað forræði yfir auðlindum sínum, en þar eru uppi hugmyndir t.d. um það í framtíðinni að framleiða rafmagn jafnvel úr vindi á jöklum norðarlega á austurströndinni. Sömuleiðis um svipaðar slóðir að framleiða mikið magn rafmagns úr vatnsafli sem forsjálir menn hafa hug á, partur af hinni grænlensku þjóð, að flytja til Evrópu og þá hugsanlega um streng sem lægi um Ísland og mundi þá tengjast streng frá Íslandi til Skotlands eða annarra Evrópulanda ef sátt og samningar tækjust um það í framtíðinni. Hér er um að ræða mikilvægt tækifæri fyrir báðar þjóðirnar.

Í tíunda lagi að undirbúa samkomulag um þjónustu við hugsanlega starfsemi á austurströnd Grænlands í tengslum við sjálfbæra auðlindanýtingu.

Sitt sýnist hverjum um ýmis áform sem þar hafa komið upp og vissulega er það svo að þau hafa ekki gengið eftir, hvorki er varðar olíunýtingu né heldur nýtingu annarra auðlinda í jörðu. En jafnvel þó að deilt sé um það þá eru það, eins og ég sagði áðan, Grænlendingar sjálfir sem hafa forráð yfir auðlindum sínum og ef svo færi að þeir mundu taka upp nýtingu auðlinda ýmissa á austurströndinni þá hafa þeir sjálfir sagt að best yrði að þjónusta slíka vinnslu af Íslandi. Það væri því til hagsbóta fyrir þjóðirnar báðar að skoða þetta og efla samstarfið á því sviði.

Í ellefta lagi að vinna að sameiginlegri framtíðarsýn um nýjar skipaleiðir á norðurslóðum og gera úttekt á ávinningum bæði Grænlands og Íslands af hinni svokölluðu miðleiðinni um norðurskautið.

Menn eru í dag að ræða tvenns konar leiðir yfir norðurskautið, þ.e. hina svokölluðu norðausturleið og síðan hina sem við þekkjum öllu betur og Rússar hafa verið að þróa. En hitt liggur alveg ljóst fyrir að miðað við spár mun fyrst verða íslaust á hinni svokölluðu miðleið sem liggur þvert yfir norðurskautið og þá eru það hafnir á Grænlandi og á Íslandi sem væru nokkuð rökréttur áfangi og áfangastöð áður en kemur alla leið til Evrópu að því er varðar flutninga frá Asíu til Evrópu.

Í tólfta lagi að efla samvinnu gegn loftslagsvánni og taka upp formlegt samstarf á sviði umhverfisverndar, ekki síst með tilliti til aukinnar umferðar á hafinu á millum Íslands og Grænlands. Það er lagt til í þessari þingsályktunartillögu að sérstaklega verði hugað að áhrifum aukinna vöruflutninga um Norður-Íshafið og vaxandi skipaumferðar á norðurslóðum.

Það liggur alveg ljóst fyrir að jafnvel þótt margir sjái það í hálfgerðum hillingum felur þetta líka í sér mjög marktækar ógnir gagnvart hreinleika sjávar ef um slys yrði að ræða til dæmis á stórum olíuskipum. Sömuleiðis liggur fyrir að það hefur stundum stappað nærri mannsköðum þegar stór kemmtiferðaskip hafa verið upp undir falljöklum á austurströndinni. Við þurfum líka, Íslendingar, að búa okkur undir að geta tekið til viðbragða fyrir hönd alþjóðasamfélagsins ef atburð af slíku tagi rekur að.

Í þrettánda lagi að efla á alla lund starfsemi Vestnorræna ráðsins í því skyni að styrkja enn frekar hin pólitísku, hin menningarlegu og hin viðskiptalegu tengsl Íslands, Færeyja og Grænlands.

Reyndar er tekið fram í hinni upphaflegu gerð þessarar þingsályktunartillögu að það skuli sérstaklega vinna að því að koma á föstum árlegum leiðtogafundi þessara þriggja þjóða. Þá ber þess að geta að annar flutningsmaður þessarar tillögu, hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir, er formaður Vestnorræna ráðsins og hefur rifið þessi mál upp af miklum skörungsskap. Það er einmitt í hennar tíð sem nefndur leiðtogafundur virðist um það bil að öðlast fastan og formlegan sess árlega.

Í fjórtánda lagi að tryggja að aukið samstarf sé við Grænland og að það verði snar þáttur í því líka að efla samstarf milli íbúa á vesturhluta vestnorræna svæðisins.

Hér er til dæmis verið að horfa til þess að það er mikill samgangur á millum Grænlands og þess hluta norðursvæða Kanada sem liggja vestan Grænlands. Það má segja að þar sé um sama málsvæði að ræða og við þurfum líka að hafa auga á þessum svæðum vegna þess að samstarf við þá kann í framtíðinni að verða öllum til hagsbóta.

Í fimmtánda og síðasta lagi er hér lagt til að Alþingi vinni stefnumótun um málefni frumbyggja á heimskautasvæðum þar sem áherslan verði fyrst og fremst á að styðja aðkomu þeirra og áhrif þeirra að því er varðar málefni sem snerta þá með bæði beinum og óbeinum hætti.

Virðulegi forseti. Ég hef lokið við að gera stuttlega grein fyrir þessari þingsályktunartillögu sem ég flyt með átta öðrum hv. þingmönnum. Hún samanstendur af 15 ítarlegum liðum þar sem hver tekur til sértæks afmarkaðs þáttar sem lagt er til að samstarfið verði grannskoðað og eflt. Ég er þeirrar skoðunar að eins og mál hafa þróast sé það skylda okkar og að við höfum af því mikinn ávinning að efla tengslin við Grænland á öllum sviðum.(Forseti hringir.)

Þetta er viðleitni okkar þingmanna sem höfum látið okkur málefni þessa samstarfs varða og þess vegna leggjum við fram þessa þingsályktunartillögu.