145. löggjafarþing — 77. fundur,  17. feb. 2016.

samstarf Íslands og Grænlands.

23. mál
[17:01]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður nefnir hér og gerir að umtalsefni spurningu mína um flugið, sem báðir aðilar græða mjög á og fá mikið út úr.

Við höfum séð hvernig flug milli Íslands og Grænlands er að aukast hjá Flugfélagi Íslands. Og hvað gerist með nýjum vélum? Mér er ekki kunnugt um það. Ég hef ekki kynnt mér það, hvort þar verði aukning á eða öruggara flug eða hvernig við viljum hugsa það.

Eg vil nú kalla akureyska flugfélagið Norlandair lítið í samanburði við aðra en það er þó stórt á landsvísu. Ég hef séð undirbúning með vélar þar sem skíði eru sett undir til að lenda á jöklinum. Svo eru skíðin tekin upp þegar aftur er lent á malbikuðum völlum eins og á Akureyri.

Hv. þingmaður talaði um flutning á vísindatækjum og vísindamönnum til rannsókna á Grænlandi og það hef ég líka séð eigin augum, sem er aðdáunarvert. Það var jafnframt undrunarvert að sjá hve mikið af tækjum og tólum voru flutt með þessum litlu vélum, sem eru 20 manna vélar, til Grænlands og í þá starfsemi sem þar er.

Þess vegna gera þessi stuttu andsvör okkar hér, sem hafa snúið að samgönguþættinum, ekkert annað en að skjóta frekari stoðum undir að Alþingi Íslendinga eigi að sameinast um að samþykkja þessa þingsályktunartillögu í vetur þannig að hægt verði að byrja á því að vinna þetta enn frekar og á skipulagðan hátt eins og hér er lagt til.