145. löggjafarþing — 78. fundur,  18. feb. 2016.

söluferli Borgunar.

[10:34]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Sá sem hér stendur hefur skrifað Bankasýslunni bréf, Bankasýslan fer með eignarhlut ríkisins í bankanum, og óskað eftir því að allt það sem hægt er að kalla fram sem upplýsingar um ákvarðanir sem tengjast sölu Landsbankans á hlutabréfunum í Borgun verði dregið upp á yfirborðið. Nú liggur fyrir að stjórnendur Landsbankans hafa sjálfir sagt að þeir hefðu betur haft söluferlið opið á sínum tíma, hafa gengist við mistökum hvað það snertir og þess vegna ætti öllum að vera ljóst að menn hafa gert sér grein fyrir því að opin og gegnsæ meðferð þessara mála skiptir öllu fyrir traust.

Hlutverk þess sem hér stendur er að marka eigendastefnuna og fylgja henni eftir. Við erum núna með hana til endurskoðunar, en í þeirri eigendastefnu sem hefur verið samþykkt er meðal annars horft sérstaklega til þess að byggja upp á Íslandi heilbrigt og öflugt fjármálakerfi sem þjónar hagsmunum íslensks samfélags, byggja upp traust og trúverðugleika á íslenskum fjármálamarkaði og að ríkið fái arð af því fé sem það leggur til fjármálafyrirtækja.

Ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst alveg ótrúlega ódýr pólitík sem hv. þingmaður stundar hér, að segja að öll ábyrgðin á einstökum ákvörðunum í bönkum sem eru í ríkiseigu liggi hjá fjármálaráðherranum. Þetta segi ég vegna þess að ég hélt að við værum komin yfir þetta stig og ég hélt að við værum komin á þann stað að vera sammála um að við þyrftum að hafa stjórn bankanna í armslengd frá áhrifum stjórnmálamanna. Það er það kerfi sem ég sé fyrir mér að sé best fyrir traust á fjármálakerfinu, að ég tali ekki um traust á stjórnmálunum, armslengd frá áhrifum stjórnmálamanna. (Forseti hringir.) En hv. þingmaður er í raun og veru að kalla eftir því að sá sem hér stendur sé með puttana í einstökum ákvörðunum bankanna. Það er ekki fyrirkomulag sem ég mun beita mér fyrir og sé ekki fyrir mér að sé til þess fallið að auka traust á Íslandi.