145. löggjafarþing — 78. fundur,  18. feb. 2016.

söluferli Borgunar.

[10:37]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Staðreyndin er sú að fjármálafyrirtækin hafa selt tugi fyrirtækja á undanförnum árum, m.a. í stjórnartíð Vinstri grænna, án opins ferlis. Má ég nefna Advania? Má ég nefna Icelandic? Má ég nefna Húsasmiðjuna? Má ég nefna félögin sem voru seld í einum pakka án gegnsæis, án þess að nokkuð væri auglýst? Má ég nefna nærri því hvert einasta fyrirtæki sem hefur ratað inn í Kauphöllina og voru komin í fang bankanna eftir hrunið sem ekki voru seld í opnu ferli, (Gripið fram í.) meira eða minna öll á endanum í eignarhaldi lífeyrissjóða og síðan inn á skráðan markað?

Hver ber ábyrgðina? Stjórn og stjórnendur Landsbankans bera ábyrgðina. Hin pólitíska ábyrgð mín er að tryggja að til staðar sé eigendastefna og að henni sé fylgt eftir. Það er nákvæmlega það sem ég gerði í bréfi til Bankasýslunnar fyrir skemmstu, ég vakti athygli á samþykktri eigendastefnu ríkisins og óskaði eftir því að Bankasýslan gripi til aðgerða til að tryggja að þeirri eigendastefnu yrði fylgt eftir. Þegar við horfum yfir sviðið í heild sinni er þetta einstaka (Forseti hringir.) mál eitt af mörgum tugum ef ekki hundruðum dæma um eignasölu sem átt hefur sér stað frá (Forseti hringir.) hruni án gegnsæis, án þess að það væri gert í opnu ferli. Það er staðan sem við horfumst í augu við í dag. Við erum að grípa til aðgerða, ég í mínu ráðuneyti og við sem ríkisstjórn, til þess að tryggja að svona hlutir endurtaki sig ekki.