145. löggjafarþing — 78. fundur,  18. feb. 2016.

brottvísun flóttamanna.

[10:39]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Í fyrradag klukkan hálfsex fengu þrír flóttamenn símtöl frá lögreglunni. Símtölin voru á þann veg að það ætti að vísa þeim frá Íslandi. Þessir menn hafa verið hér í þrjú til fjögur ár. Allir eru þeir með dvalarleyfi og atvinnuleyfi. Það var enginn tími fyrir þá til að búa sig undir að vera sendir út í óvissuna, út á götu á Ítalíu sem hæstv. ráðherra hefur samþykkt út frá samantekt sem mér er fyrirmunað að skilja að sé öruggt land þrátt fyrir að Læknar án landamæra hafi yfirgefið Ítalíu í síðasta mánuði í mótmælaskyni út af hryllilegum aðbúnaði flóttamanna. Mig langar því að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann telji ekki nauðsynlegt að endurskoða það mat að óhætt sé að senda fólk til Ítalíu.

Síðan langaði mig líka aðeins að fara yfir þetta ferli. Við sem látum okkur málefni flóttamanna varða vildum hjálpa þessum mönnum. Við reyndum að fá upplýsingar um hvert þeir væru að fara. Ég gat ekki fengið neinar upplýsingar um það hvert til Ítalíu Christian væri að fara. Því gat enginn svarað. Þegar ég fékk þetta mál í hendur var búið að loka öllum símum hjá ríkislögreglustjóra og hvergi hægt að fá beint númer. Ég ætlaði ekki að fara að hringja í 112.

Það átti að senda þennan mann sem er með dvalarleyfi hér og atvinnuleyfi á einhvern stað á Ítalíu sem hann vissi ekki hver væri en mér skildist eftir eftirgrennslan að það væri einungis beint flug til Mílanó en ekki Rómar. Þangað hélt hann hins vegar að hann væri kannski að fara.

Finnst ráðherranum svona vinnubrögð boðleg og sá stutti tími sem mönnunum var gefinn? Ljóst er að miðarnir voru keyptir 5. febrúar. Af hverju voru þeir ekki látnir vita strax?