145. löggjafarþing — 78. fundur,  18. feb. 2016.

brottvísun flóttamanna.

[10:43]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég þakka skýr svör og veit að hæstv. ráðherra hefur lagt mikla áherslu á að verklagið verði betra. Mér finnst einhvern veginn vanta skýrari verklagsreglur fyrir þá aðila sem eru að vinna með þennan málaflokk, sér í lagi þegar kemur að brottvísunum. Mér finnst ómannúðlegt að viðkomandi sem á að vísa brott fái til dæmis ekki nein gögn í hendur um næstu skref. Mér finnst ómannúðlegur sá stutti tími sem fólk fær og er ég þá að tala almennt, ekki bara um þessa þrjá einstaklinga. Ég hef séð þetta gerast aftur og aftur og ég vona að í ráðuneytinu verði lögð mikil áhersla á að svona verklag endurtaki sig aldrei.