145. löggjafarþing — 78. fundur,  18. feb. 2016.

öryggismál ferðamanna.

[10:46]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil eiga orðastað við hæstv. innanríkisráðherra og ræða þann aðkallandi vanda sem okkur hefur orðið tíðrætt um nú í vikunni og lýtur að öryggismálum ferðamanna á Íslandi. Þetta er framhald umræðu sem hefur staðið núna um skeið þar sem yfirstjórn ferðamála í landinu, þó einkanlega ríkisstjórnin sem auðvitað ber frumábyrgð, hefur legið undir þungu ámæli fyrir aðgerðaleysi og ákveðið ráðaleysi í þessum málaflokki.

Við heyrum ítrekað fréttir af banaslysum í ferðaþjónustunni, nú síðast í Reynisfjöru þar sem níu manns hafa komist í bráðan lífsháska frá árinu 2007 og tveir hafa látist. Það verða drukknunarslys í Silfru á Þingvöllum, fólk er að farast í jökulsprungum og ítrekað að lenda í stórhættu á flughálum göngustígum í nálægð við stærstu vatnsföll landsins.

Svörin sem koma frá stjórnvöldum um aðgerðir til úrbóta hafa því miður ekki gert öllu meira en að vekja enn frekari ugg vegna þess að þau fjalla ekki efnislega um annað en að verið sé að vinna að málinu, bíða eftir áhættugreiningu og leggja drög að einu og öðru.

Samt vita allir að innviðirnir eru að kikna undan álagi og að öryggisþröskuldurinn er við það að bresta. Á vegum landsins hefur hættan stóraukist vegna mikillar umferðar ferðamanna sem bæði veldur sliti á vegum og hættu því að umferðarmenning ferðamanna er oft önnur en sú sem hér tíðkast.

Nú spyr ég hæstv. innanríkisráðherra sem hlýtur að hafa þungar áhyggjur af þessu: Hvenær er að vænta afgerandi tillagna frá ráðherranum um nauðsynlegar úrbætur í öryggismálum ferðamanna og þá ekki síst löggæslunni? Hverjar verða fyrstu aðgerðir og hvenær?