145. löggjafarþing — 78. fundur,  18. feb. 2016.

öryggismál ferðamanna.

[10:51]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé alveg skýrt að á þeim stöðum sem ríkið hefur sjálft eignarhald hljótum við að bera töluvert mikla ábyrgð, þ.e. ríkið, ekki satt? Í Reynisfjöru er reyndar um einkaland að ræða þannig að málið er með dálítið öðrum hætti þar. Eins og hv. þingmaður veit er vegna atburða þar og þeirrar hættu sem stöðugt er í Reynisfjöru vegna ótrúlegs fjölda ferðamanna sem hana sækir ákveðin neyðarráðstöfun í gangi.

Í mínum huga er alveg augljóst mál að þjóðvegakerfi landsins er þar sem mestan hættan knýr á. Þar er öll umferðin. Þar fara um bæði íslenskir og erlendir vegfarendur. Þar verðum við að gæta að öryggismálum og minn vilji er að þar sé gengið lengra. Það er minn vilji, bæði þegar litið er til öryggis á vegum og eins þegar litið er til þeirra framkvæmda sem hugsanlegt er að farið verði í, að sérstaklega verði litið til viðhalds á vegakerfinu. Þar er um stórkostlega stórt verkefni að ræða og mun taka okkur langan tíma að komast á það stig sem við helst viljum vera. (Forseti hringir.) En á því er verið að taka.