145. löggjafarþing — 78. fundur,  18. feb. 2016.

íþróttakennaranám á Laugarvatni.

[10:58]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Það verður ekki bæði sleppt og haldið í þessu. Háskólinn hefur sitt sjálfstæði og það er tryggt með lögum. Þar undir eru ekki bara rekstrarleg málefni skólans, það er líka stefna hans og áherslur. Það fyrirkomulag sem hann hefur komið sér upp er að ráðherrann sé ekki að hlutast til um einstakar ákvarðanir háskólaráðsins. Síðan er hitt alveg rétt að það skiptir máli og ég treysti því og trúi að háskólaráðið horfi til allra þeirra sjónarmiða sem hv. þingmaður lýsti hér.

Það að bera þetta hins vegar saman við flutning Fiskistofu finnst mér sýna að það skorti nokkuð upp á — ég tel með engum hætti hægt að bera þau tvö mál saman, virðulegi forseti, annars vegar þá löggjöf sem gildir um sjálfstæði Háskóla Íslands og síðan flutning á einstökum opinberum stofnunum. Mér finnst þetta algjörlega fráleitur samanburður en um leið lýsir hann nokkuð þessu máli, að menn geta ekki bæði átt kökuna og étið hana, annaðhvort eru lög um Háskóla Íslands og sjálfstæði hans þar með eða ekki. Ráðherra getur ekki labbað bara inn í stofnunina og hlutast þar til um dagskrá funda, hvenær (Forseti hringir.) þar eru teknar ákvarðanir o.s.frv., en ég ítreka að ég skil vel málið, ég skil vel stöðu þingmannanna og það er sjálfsagt að þeir beiti sér í málinu eins og þeir hafa gert nú þegar, virðulegi forseti.