145. löggjafarþing — 78. fundur,  18. feb. 2016.

staða ungs fólks.

[11:04]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Hæstv. forseti. Ég er bara ekki sammála þessu. Mér finnst ríkisstjórnin ekki hafa hjálpað ungu fólki. Alls ekki. Og einmitt ekki hjálpað því til að hjálpa sér sjálft. Við erum ekkert að biðja um mikið. Ég vil ekki sjá eitthvert rosalegt bótakerfi í kringum ungar fjölskyldur. Ég vil og við í Bjartri framtíð að skólastigin séu til dæmis ókeypis. Þetta er bara það sem við þurfum til þess að hafa almennilegt samfélag. Fólk á ekki að þurfa að borga himinhá gjöld fyrir ungbarnaleikskóla til þess að geta hent sér aftur út á vinnumarkaðinn til að borga og halda uppi hagvexti og til að halda hjólunum gangandi. Þetta er algert rugl. Fæðingarorlofið er þannig að fólk getur ekki nýtt sér það. Feður nýta sér það ekki af því að það er svo dýrt fyrir fjölskyldurnar. Fólk getur ekki haldið áfram að borga af lánum sem það tekur. Við höfum verið að sjá í nýjustu tölum að fólk nýtir ekki allan tímann í fæðingarorlofi sínu af því að þakið er allt, allt of lágt. (Forseti hringir.) Hæstv. ráðherra hefur ekki gert nógu vel í þessu og ég vil að kjósendur muni það.