145. löggjafarþing — 78. fundur,  18. feb. 2016.

verðtrygging og afnám hennar.

[11:20]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það er nokkur skaði að hæstv. forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins skuli ekki vera hér til svara eða að minnsta kosti viðstaddur umræðuna, með fullri virðingu fyrir hæstv. fjármálaráðherra að sjálfsögðu, því að það var Framsóknarflokkurinn og ekki síst formaður hans sem lofaði afnámi verðtryggingar eftir kosningar. Ég var í kosningabaráttunni í Norðausturkjördæmi þar sem hæstv. forsætisráðherra er í framboði og man mjög vel að fjöldi fólks upplifði það þannig að þetta loforð þýddi að verðtrygging ætti bara að hverfa með öllu af yfirborði jarðar, bæði af þegar veittum lánum og nýjum. Þannig upplifði fólk þetta í stórum stíl og kaus út á það, rétt eins og það kaus út á það að 300–350 milljarðar af skuldum heimilanna mundu gufa upp daginn eftir að Framsókn yrði kosin til valda. (Gripið fram í: ESB líka.) Framsókn hefur auðvitað fundið lausn á þessu vandamáli. Hún er fólgin í því að finna sökudólg, blóraböggul, og það er hæstv. fjármálaráðherra. Það er oddviti samstarfsflokksins sem er skúrkurinn þegar framsóknarmenn tala um þetta hér eins og við höfum iðulega upplifað í þingsalnum. Þannig er ástandið á kærleiksheimilinu.

Varðandi verðtrygginguna er það að sjálfsögðu rétt og ein af niðurstöðum þessarar skýrslu að hið mikla umfang hennar í hagkerfinu er mikið böl og það er vandamál hvernig við vinnum okkur út úr því. Þess vegna höfum við sem höfum reynt að tala um þetta ábyrgt og forðast lýðskrumið lengi verið talsmenn þess að draga úr vægi verðtryggingarinnar eins og mögulegt væri, en það þarf að gera yfirvegað og skipulega.

Vandamálið í grunninn er samt ekki verðtryggingin og má þá skjóta mig fyrir að segja þetta. Vandamálið er hvað fjármagnið er dýrt á Íslandi, hvað það tekur mikið til sín, hvað það er óviðráðanlegt fyrir tekjulágt fólk að eignast húsnæði meðan vaxtastigið í landinu er svona rosalega hátt. Ef það er niðurstaðan að lánskjör á breytilegum vöxtum til styttri tíma eru óviðráðanleg hvað greiðslubyrði snertir fyrir stóran hluta landsmanna verðum við auðvitað að taka það alvarlega áður en við stígum einhver lítt yfirveguð skref í þessum efnum. Það er það sem þarf (Forseti hringir.) að takast á við á Íslandi, að hér séu í boði skikkanleg lánskjör sem ganga upp fyrir venjulegt fólk.