145. löggjafarþing — 78. fundur,  18. feb. 2016.

verðtrygging og afnám hennar.

[11:23]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég fagna þessari umræðu um verðtrygginguna og þakka málshefjanda, hv. þm. Helga Hrafni, fyrir að taka þetta mál hér fyrir og hæstv. ráðherra fyrir innleggið. Hæstv. ráðherra fór mjög vel yfir skaðsemi verðbólgu og óstöðugleika sem kemur mjög vel fram í þeirri skýrslu sem verðtryggingarhópurinn skilaði. Það er mjög þétt skýrsla, ég tek undir það. Jafnframt kemur þar vel fram að þetta mikla umfang verðtryggingar í hagkerfinu veldur okkur vanda og er hluti af því að halda hér uppi háu verði á peningum. Það kemur jafnframt vel fram í þessari skýrslu.

Ég lít ekki svo á að við séum að banna eitt eða neitt. Við erum að breyta lánafyrirkomulagi, við erum að draga úr gríðarlegu umfangi verðtryggingar. Það er nauðsynlegt út frá hagstjórnarlegum sjónarmiðum. Og ekki bara það, við erum nýbúin að samþykkja lög um opinber fjármál og erum að tala um aga í stjórnsýslu og það þarf jafnframt að kalla fram aga í hagkerfinu. Aginn felst í því að verðtryggingin á að heita sínu rétta nafni. Hún á að heita vextir, þetta eru breytilegir vextir. Lánveitandinn verður að kostnaðarmeta þegar hann veitir lán og taka tillit til raunvaxta þannig að hann gefi þá upp kostnaðinn við að veita lánið og lántakinn viti hvaða kostnað hann er að takast á hendur og geti þá metið í hvað hann ætlar að nýta lánið. Þannig nær aginn út yfir allt þjóðfélagið.

Þetta er kannski kjarni máls í því hvers vegna nauðsynlegt (Forseti hringir.) er að breyta þessu lánafyrirkomulagi.