145. löggjafarþing — 78. fundur,  18. feb. 2016.

verðtrygging og afnám hennar.

[11:28]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Þetta mál er búið að vera ansi vandræðalegt fyrir hæstv. ríkisstjórn, sérstaklega hæstv. forsætisráðherra fyrir að vilja ekki koma í þingsal og ræða þetta mál.

Verðtryggingin er nokkuð sem við á Íslandi höfum þurft að búa við í hálfa öld, ef ekki lengur. Verðtryggingin er þannig lagað séð ekki slæm í eðli sínu. Það virðist vera möguleiki í flestum löndum að vera með verðtryggð lán en þá er samt sem áður einnig möguleiki að vera með óverðtryggð lán. Vandamálið við íslenskt efnahagslíf er að það er ekki raunverulegur möguleiki að vera með óverðtryggð lán. Það er möguleiki á blaði en ekki raunverulegur möguleiki fyrir þá sem ætla að taka lánið.

Hins vegar er líka annað sem við þurfum að horfa á í þessu samhengi og það er gjaldmiðillinn. Íslenska krónan er agnarsmár gjaldmiðill sem reynir að berjast við jötna. Þeir sem vilja halda í þennan agnarsmáa gjaldmiðil þurfa að rökstyðja hvernig þeir ætla að gera það með þessari verðbólgu, með þessari verðtryggingu sem sumir hverjir vilja afnema, rökstyðja hvernig þeir hugsa sér efnahagslíf á Íslandi með þessu móti.

Það skiptir ekki máli hversu mikill agi er í fjármálum. Það skiptir ekki máli þótt það sé komið nýtt kerfi til að búa til fjárlög. Það sem skiptir máli er að við séum með gjaldmiðil sem virkar í alþjóðasamhengi, gjaldmiðil sem er einhvers virði þegar öllu er á botninn hvolft. Íslenska krónan, eins fallega og hún lítur út, og hugmyndin um hana virðist ekki neitt sérstaklega gjaldgeng. Hún virðist að miklu leyti vera rótin að þessum vanda öllum saman.