145. löggjafarþing — 78. fundur,  18. feb. 2016.

verðtrygging og afnám hennar.

[11:32]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Verðtryggingin varð ekki til af sjálfri sér og hún verður varla afnumin nema eitthvað komi í staðinn.

Hvað getur komið í staðinn fyrir verðtrygginguna? Jú, vextir geta komið í stað verðtryggingar. En þeir vextir þurfa að vera háir. Jafnvel nú þegar verðbólgan er í lágmarki eru óverðtryggðir vextir á milli 7 og 8%. Það eru mjög háir vextir. Eins og launakjör og lífskjör, matarverð og annað er hér á landi þá getur engin venjuleg manneskja ráðið við fasteignalán með yfir 7% vöxtum.

Mönnum hefur dottið í hug að banna verðtryggð lán sem eru lengri en 25 ár, sem sagt 40 ára lán sem hafa verið kölluð Íslandslán, en þau eru samt einu lánin sem margir ráða við að borga af. Vissulega eignast fólk ekki mikið í fasteigninni á fyrstu 15 árunum eða jafnvel eitthvað lengur. En það hefur öruggt húsnæði og það hefur fólk ekki ef það er á leigumarkaði í dag.

Ef verðbólgu er haldið í skefjum þá er verðtryggingin ekki til vandræða. En það leiðir til vandræða hve vextir eru háir hér á landi. Það er vegna krónunnar. Það er vegna þeirra kjara sem lánastofnanir fá, sem eru háir vextir. Og ef það er eitthvað annað en það þá er vaxtaokur hjá bönkum og þá þarf að finna leiðir til að leiðrétta það. Það er engin lækning að afnema verðtryggingu, en fólk á að hafa val. Menn eiga að hafa val um að taka verðtryggð lán eða óverðtryggð lán.

Stóra áskorunin, forseti, hlýtur hins vegar að vera að gera vaxtaumhverfið sambærilegt við það sem gerist í öðrum löndum hvort heldur er fyrir fólk eða fyrirtæki. Hvernig verður það gert? Það verður gert í samstarfi við aðrar þjóðir.