145. löggjafarþing — 78. fundur,  18. feb. 2016.

verðtrygging og afnám hennar.

[11:37]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég ætla í seinni ræðu minni að byrja á spurningu sem mér finnst afar góð: Af hverju ekki bara að hafa val? Val í dag er í raun og veru nauðung. Eins og komið hefur mjög skýrt fram er greiðslubyrði á óverðtryggðum lánum of þung fyrir mjög mikinn fjölda þannig að fólk neyðist til þess að taka á sig byrðar inn í framtíðina sem eru tvisvar sinnum dýrari en að taka óverðtryggð lán þótt þau séu með jafn háum vöxtum og eru í dag. Þetta er það sem veldur vandkvæðum í því að takast á við meginmarkmiðin í hagstjórn sem eru auðvitað stöðugleiki og lægri vextir.

Hver yrði afleiðingin af því að breyta, mér er illa við að segja banna, verðtryggingunni? Það verður áfram til neysluvísitala. Lánveitandinn verður áfram að horfa til raunvaxta. Neysluvísitala mun áfram mæla verðlagsbreytingar þannig að þegar lánveitandinn kostnaðarmetur lán sitt tekur hann tillit til raunvaxta. Það sem mun hins vegar breytast er að hann mun taka ábyrgð til jafns við lántakann á breytingum á verðlagi inn í framtíðina. Það er sanngjarnt. Það mun jafnframt verða til þess að slíkir óverðtryggðir vextir verða viðráðanlegir. Það mun hvetja stjórnvöld til að fara í mótvægisaðgerðir, framlengja séreignarsparnaðarstefnuna sem er afar skynsamleg. Þannig að til lengri tíma mun Seðlabankinn þurfa að hækka það eina stjórntæki sem hann hefur vegna þess að undirliggjandi 4–5% verðbólga yrði mögulega 11–14% ef hann hefðist ekki að. Við höfum verið með verðstöðugleika í tvö ár, hann er afar dýrmætur. Við höfum því tækifæri núna eftir þessa faglegu og vönduðu vinnu stjórnvalda með skýrslunni, með athugunum á því hvar ungt fólk er statt í dag (Forseti hringir.) með að taka fyrsta lán, til þess að breyta þessu kerfi.