145. löggjafarþing — 78. fundur,  18. feb. 2016.

verðtrygging og afnám hennar.

[11:39]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég fagna þessari umræðu. Mér þykir hún mjög mikilvæg og verð að segja að ég hef aldrei skilið hvað sérstaklega framsóknarmenn eru að ræða um með að banna verðtryggingu. Mér finnst það fráleitt því að þetta er einkenni á vandamálinu en ekki orsök. Orsökin er auðvitað óstöðugleiki í hagstjórn og hátt vaxtastig bankanna af því að þeir ætla að tryggja sig. Þeir tryggja sitt fjármagn og munu alltaf gera það.

Mér fannst samt mjög áhugavert að heyra skoðun hv. þm. Willums Þórs Þórssonar um verðtrygginguna. Ég skil hvað hann er að fara, en af hverju eru þá óverðtryggðu vextirnir ekki þetta tæki? Við sjáum að þeir eru óraunhæfir. Þeir eru 7–8%. Af hverju virka þeir þá ekki eins og þingmaðurinn ræðir um þar sem lánveitandinn er samábyrgur fyrir láninu? Þetta eru allt of háir vextir. Fólk getur ekki tekið svona dýr lán eins og við vitum alveg.

Vandamálið er að við búum við óstöðugan gjaldmiðil. Hann er óstöðugur vegna þess að hann er lítill og verður auðveldlega fyrir miklum áhrifum frá utanaðkomandi þáttum. Við þurfum stöðugan gjaldmiðil, það er það sem þetta snýst um. Við þurfum jarðtengdan gjaldmiðil, hann þarf að hafa fast land undir fótum og íslensk efnahagsstjórn hefur ekki verið þessi jarðtenging svo lengi sem menn muna. Ég held að hún verði það ekki. Við verðum að læra af sögunni, við þurfum að tengja okkur við stærra batterí — og það er ESB.