145. löggjafarþing — 78. fundur,  18. feb. 2016.

verðtrygging og afnám hennar.

[11:41]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á að þakka fyrir þessa ágætu umræðu. Þótt ég hafi haft sérstakar mætur á ræðum hv. þm. Willums Þórs Þórssonar hefði ég gjarnan viljað fá fleiri framsóknarmenn með í umræðuna. Mig langar að velta upp spurningu: Hvað ef stjórnmálaflokkur færi í kosningabaráttu út í það fen að lofa lægri stýrivöxtum? Það er ástæða fyrir því að seðlabankar eru sjálfstæðir. Hún er sú að stjórnmálamenn vilja alltaf hafa vexti lægri. Þegar stjórnmálamenn lofa því að ætla að afnema verðtryggingu fæ ég ekki betur séð en að þeir séu að lofa mjög sambærilegum hlutum, þ.e. að fólk þurfi að borga minna af peningum til að lifa lífi sínu og eiga sitt húsnæði. Mér finnst að við eigum að ræða þetta mál af sömu ábyrgð og við ætlumst til þegar kemur að stýrivöxtum.

Auðvitað eru misjafnar skoðanir á því hvað sé orsök og hvað afleiðing í hagkerfinu almennt. Það á við um verðtryggingu og stýrivexti en það má alltaf leiða að því líkur að stjórnmálamenn muni komast að þeirri niðurstöðu og aðhyllast þær kenningar sem þeim tekst að rökstyðja með lægri vöxtum. Það verður alltaf þannig vegna þess að það eru fjárhagslegir hagsmunir kjósenda og í beinu kjölfari pólitískir hagsmunir stjórnmálamanna. Þess vegna verðum við að nálgast þetta umræðuefni af meiri ábyrgð en svo að lofa einfaldlega einhverju sem okkur langar að gefa fólki vegna þess að við eigum að vera svo góðir stjórnmálamenn.

Það sem mér finnst standa eftir við lok umræðunnar er rót vandans sem er enn til staðar. Við höfum óverðtryggð lán og vextirnir eru háir. Verðbólga er lág núna og hefur verið í einhvern tíma, vextirnir eru samt mjög háir. Það vandamál virðist ekki fara neitt. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og hlakka til að sjá framvindu málsins en ég verð að segja að mér þykir rótin að vandanum ekki hafa komist nægilega til umræðu hér. Ég vona því að umræðan um málið verði (Forseti hringir.) ítarlegri og vænti þess í kjölfar framlagningar frumvarps hv. þm. Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur.