145. löggjafarþing — 78. fundur,  18. feb. 2016.

verðtrygging og afnám hennar.

[11:43]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Það er vissulega rétt að það er mikilvægt að ræða hér rót vandans. Okkur hefur orðið eitthvað ágengt á undanförnum áratugum. Mér finnst til dæmis sjálfsagt að rifja upp að þegar ég var nýkominn í heiminn, ætli ég hafi ekki verið þriggja ára, fór verðbólgan yfir 20%. Hún fór ekki undir 20% fyrr en ég hafði náð 19 ára aldri. Frá því að ég var þriggja ára til 19 ára var hún stanslaust 20% og að jafnaði var hún miklu hærri, 40, 50, 60% verðbólga. Hún fór yfir 100% á einum tímapunkti. Þessir tímar eru tímarnir þegar verðtryggingin var tekin upp. Síðasti áratugur síðustu aldar og árin á þessari öld hafa einkennst af miklu minni verðbólgu en hún er samt enn of mikil og vextir þar af leiðandi enn of háir og allt rétt sem fram hefur komið hér, m.a. hjá hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur, að flest venjulegt launafólk er í strögli með að standa undir húsnæðislánum á þessu vaxtastigi. Þetta er bara svona.

Það sem við þurfum að gera sem samfélag er að byggja betur brýr milli þess sem stjórnvöld eru að gera annars vegar og vinnumarkaðurinn hins vegar og síðan er samspilið við það sem er að gerast í Seðlabankanum þannig að við náum betur tökum á þessu. Á þessu kjörtímabili hefur verðbólga verið lág, ekki bara vegna þess að það hefur gengið svo vel í þessu samstarfi, heldur ekki síður vegna þess að við höfum flutt inn verðhjöðnun. Það sem hefur gerst hér eru enn ákveðin einkenni þess sem við höfum haft um of langan tíma, að hlutirnir tala ekki nægilega vel saman. Við erum til dæmis að taka út að öllum líkindum meiri kaupmátt núna en innstæða er fyrir. Tekst okkur að ná mjúkri lendingu eftir það? Það verður mjög krefjandi verkefni. En þetta hangir allt á því að við störfum í anda nýrra laga um opinber fjármál til lengri tíma, (Forseti hringir.) að ríkisfjármálin styðji við stöðugt verðlag í landinu og að það sé traust milli vinnumarkaðar og stjórnvalda sem leiði fram ábyrga kjarasamninga og að við róum þannig sameiginlega öllum árum að meiri stöðugleika, minni verðbólgu og lægra vaxtastigi. Þetta er hægt að gera. Okkur hefur ekki tekist vel að gera þetta í gegnum tíðina en ég tel að við stöndum á vissum tímamótum núna með SALEK-samkomulagið og nýsamþykkt lög um opinber fjármál. (Forseti hringir.) Fram undan eru vonandi betri tímar fyrir ungu kynslóðina en þeir sem ég var að lýsa á árabilinu 1970–1990.