145. löggjafarþing — 78. fundur,  18. feb. 2016.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um endurskoðun ríkisreiknings 2013.

305. mál
[12:14]
Horfa

Frsm. fjárln. (Vigdís Hauksdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir áliti fjárlaganefndar um skýrslu Ríkisendurskoðunar um endurskoðun ríkisreiknings 2013.

Mikil vinna hefur farið í þessa skýrslu í fjárlaganefnd eða þetta álit, þar sem farið var vel ofan í ríkisreikning 2013. Við gerðum athugasemdir við 46 atriði í ríkisreikningi og kölluðum til okkar gesti til að fara yfir þau atriði sem okkur fannst vera misræmi í.

Þess ber að geta í upphafi, virðulegi forseti, að undir þetta álit skrifa allir nefndarmenn í fjármálanefnd. Auk mín hv. þingmenn Guðlaugur Þór Þórðarson, Oddný G. Harðardóttir, Ásmundur Einar Daðason, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Brynhildur Pétursdóttir, Haraldur Benediktsson, Valgerður Gunnarsdóttir og Páll Jóhann Pálsson. Nefndin er einhuga á þessu áliti enda er þetta ekki pólitískt álit heldur fyrst og fremst faglegt, það sem betur hefði mátt fara í ríkisreikningi o.s.frv.

Til að byrja með þá er það þannig að fjárlaganefnd hafði haft skýrslu Ríkisendurskoðunar, um endurskoðun ríkisreiknings 2013, til ítarlegrar umfjöllunar. Við fengum á okkar fund fulltrúa Ríkisendurskoðunar og fjármála- og efnahagsráðuneytisins við úrvinnslu þessa álits. Við í nefndinni óskuðum einnig eftir skriflegum skýringum á ýmsum ábendingum og athugasemdum sem komu fram í skýrslunni frá Ríkisendurskoðun, fjármála- og efnahagsráðuneyti, Fjársýslu ríkisins og dómstólaráði.

Þess ber að geta að stofnaður var vinnuhópur í fjárlaganefnd og í honum sátu formaður fjárlaganefndar og varaformaður fjárlaganefndar auk fulltrúa frá hverjum þingflokki, frá Vinstri grænum, frá Bjartri framtíð og frá Samfylkingunni. Fulltrúar þeirra aðila voru hv. þingmenn Oddný Harðardóttir, Bjarkey Olsen og Brynhildur Pétursdóttir.

Með þessu áliti vildum við reyna að draga fram helstu athugasemdir Ríkisendurskoðunar við ríkisreikning hvers árs, álit fjárlaganefndar á þeim og gera formlegar tillögur til úrbóta. Við vildum hvetja til umræðna um eftirlit og framkvæmd fjárlaga með það að markmiði að leggja grunn að betri og agaðri stjórn ríkisfjármála.

Þetta álit var þannig unnið að sendar voru fyrirspurnir til Ríkisendurskoðunar og þeirra aðila sem helstu ábendingar og athugasemdir stofnunarinnar lutu að. Í þessu skjali má finna ábendingar frá stofnuninni og þær eru reifaðar. Síðan er þetta sett upp á þann veg að þar eiga eftir að koma svör viðkomandi aðila og svo samandregin ályktun eða álit fjárlaganefndar Alþingis um þau svör sem þar eru talin eiga við.

Ég ætla aðeins að lesa hér formálann að hverju atriði af þeim 46 sem við skoðuðum sérstaklega; við fengum til okkar gesti og ályktuðum síðan í lokin, virðulegi forseti:

Í fyrsta lagi gerðum við athugasemdir við færslu verðbóta og gengismunar um höfuðstólsreikning. Þarna reifum við þær reikningsskilareglur sem uppgjör ríkisreiknings byggist á. Það hafa verið ákveðnar áherslur hjá aðilum, annars vegar hjá fjármálaráðuneytinu og hins vegar hjá Ríkisendurskoðun, um það hvernig gera skuli ríkisreikning upp. Sé hann gerður upp, eins og Ríkisendurskoðun hefur margoft bent á, þá stendur ríkissjóður 30 milljörðum verr en birtist í ríkisreikningi. En nú er komið samkomulag í þessu máli milli Ríkisendurskoðunar og fjármálaráðuneytisins og það samkomulag var gert í kjölfar þess og í forvinnu þess að hér voru sett ný lög um opinber fjármál; þá á þessi ágreiningur að vera úr sögunni til allrar framtíðar og það ákvæði tekur gildi 2017.

Það var því ágætt að þetta skyldi hafa komið þarna upp og við tókum á þessu. En svo verðum við náttúrlega að fylgja þessu vel eftir og þá er spurt: Hvernig fer um þessa tæpu 30 milljarða í framtíðinni í bókhaldi ríkisins? Út úr því verða til þess bærir aðilar að finna. Ef ríkið er rekið eins og fyrirtæki á almennum markaði, og samkvæmt þeim reikningsskilavenjum sem Ríkisendurskoðun bendir á, þá munar þetta háum upphæðum.

Við fórum svo yfir í færslu verðbóta af lífeyrisskuldbindingum ríkissjóðs. Lífeyrisskuldbindingarnar eru uppi á borðum í hverjum einasta mánuði og það að ríkið skuli vera í stórum mínus gagnvart ríkissjóði. Við tökum á því og skrifuðum álit um þann punkt að fjárlaganefnd bendir á, eins og áður hefur komið fram, að núverandi fyrirkomulag við færslu verðbóta hefur veruleg áhrif á rekstrarreikning ríkisins og veldur óviðunandi skekkju í afkomumælingu ríkisins.

Í framhaldinu var tekin ákvörðun um að setja umfjöllun um þetta í nefndarálit meiri hluta fjárlaganefndar við fjárlög 2016 þar sem reynt var að leggja mat á hverjar raunverulegar lífeyrissjóðsskuldbindingar ríkisins væru. Það var gert og við höfum talað mjög fyrir því, meiri hluti fjárlaganefndar, að þetta væri fært í ríkisreikning þannig að allir séu meðvitaðir um hve gríðarlega háar upphæðir er að ræða því að þetta er framtíðarskuld ríkisins. Að mínu mati og meiri hluta fjárlaganefndar þýðir ekkert að færa ekki þær færslur til að dylja eða fresta því vandamáli sem lífeyrissjóðsskuldbindingar ríkissjóðs eru til langrar framtíðar.

Við tókum jafnframt á því að aðrar áhvílandi skuldbindingar ættu að koma inn í efnahag ríkissjóðs. Það gefur augaleið að það sé þá alveg hrein staða hvernig ríkissjóður stendur og það var ágætt að koma því inn.

Svo fórum við lengra inn í lífeyrissjóðina, heildariðgjald til A-deildar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Við ítrekuðum það álit okkar að stjórn LSR beri að sjá til þess að deildin eigi fyrir skuldbindingum. Nefndin telur óásættanlegt að ekki sé búið að leysa úr ágreiningi Ríkisendurskoðunar og fjármála- og efnahagsráðuneytisins varðandi áfallnar lífeyrisskuldbindingar A-deildar sjóðsins. Þetta virðist vera eilífðarverkefni en vonandi færist þetta jafnframt til betri vegar þegar nýju lögin um opinber fjármál taka gildi og ríkisreksturinn verður færður upp eins og þau segja til um.

Við teljum að það sé óviðunandi að stofnanir ríkisins geri ekki eignaskrá. Það verður innleitt í lögunum um opinber fjármál þannig að búið er að færa þetta til betri vegar. Nú svo er þessi sígildi punktur um neikvætt bundið eigið fé nokkurra stofnana ríkisins. Þar ber hæst, þegar þetta álit er skrifað, að Vegagerðin er með neikvætt bundið eigið fé upp á rúma 17,3 milljarða í árslok 2013 vegna þess að gjaldaheimild stofnunarinnar vegna markaðra tekna hefur verið ákveðin mun hærri en áætlaðar tekjur eru. Þetta þarf einhvern veginn að núllstilla þegar lögin um opinber fjármál verða komin til framkvæmda. Í fljótu bragði virðist það vera að ef ekki á að láta Vegagerðina bera þennan mikla halla inn í komandi ár — ég veit ekki til hvaða ráða verður gripið, hvort þetta verði afskrifað eða hvernig það verður, en það er fjármálaráðuneytið sem hefur það viðfangsefni að leysa úr þessu.

Við tókum líka á því sem kemur fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar um að setja þurfi lög um skattastyrki. Við erum alveg sammála þeirri ábendingu og beindum því til fjármála- og efnahagsráðuneytis að hefja vinnslu frumvarps í þá veru. Það er því eitthvað sem þarf að taka á.

Svo bendir ríkisendurskoðandi á að skýra þurfi þá áhættu sem ríkissjóður geti staðið frammi fyrir. Við teljum eðlilegt að í skýringum með ríkisreikningi sé fjallað um stærstu fjárhagslegu áhættuþætti sem ríkissjóður stendur frammi fyrir, sem og aðra áhættu sem ástæða er til að gera grein fyrir. Ríkisendurskoðun var hjá okkur í gær á fundi fjárlaganefndar. Þar kom til dæmis fram, þó að það sé ekki akkúrat í þessum meiri háttar skuldbindingum, að eðlilegt sé að gerð sé grein fyrir því í reikningum ríkisins að til staðar sé þessi áhættuþáttur varðandi hugsanlegar greiðslur sem ríkissjóði beri að inna af hendi vegna dómsmála sem standa yfir á hverju ári fyrir sig og tók fjárlaganefnd heils hugar undir það.

Punktur 10 er endurskoðun reglna um færslu eignarhluta ríkissjóðs í fyrirtækjum og stofnunum. Við erum sammála þeirri ábendingu. Það þarf að gera gangskör þarna.

Ítarlega var fjallað um rekstrarframlag til Íbúðalánasjóðs. Ríkisendurskoðandi gerði alvarlegar athugasemdir við málefni Íbúðalánasjóðs og við tókum á því og fengum til okkar gesti varðandi þennan punkt og jafnframt vegna eiginfjárhlutfalls Íbúðalánasjóðs.

Rætt var um nýtt stofnfé í Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins. Við ræddum um hlutdeild í afkomu og eigin fé fyrirtækja í B- og E- hluta, að þau væru ekki bókfærð í A-hluta ríkissjóðs. Við fórum yfir lið sem við köllum flokkun á framlagi til IDA. Það er sem sagt hvernig framlag til Alþjóðaframfarastofnunarinnar eigi að flokkast sem stofnfjárframlag til sjóðsins eða hvort um sé að ræða rekstrarframlag.

Virðulegi forseti. Þetta er punktur sem kom upp á fundi fjárlaganefndar í gær með Ríkisendurskoðun þegar við vorum að fara yfir málefni ársins 2014. Þau atriði sem eru í þessu áliti fjárlaganefndar dúkka flest upp aftur. En ég staðfesti að þeim hefur þó fækkað og líklega hefur þetta álit þá haft eitthvað að segja.

Við ræddum líka skuldbindingar og greiðsluskyldu vegna sjóða og stofnana erlendis, uppgjör á tryggingum vegna gjalþrotaskipta, kröfur á hendur skiptastjórum, verðmat bankavíxla útgefinna af Kaupþingi banka. Við ræddum sameiningu Lífeyrsissjóðs hjúkrunarfræðinga við B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Það er ekki nokkur einasta leið að fá þessa lífeyrissjóði til að renna saman. Við erum búin að gera tilraunir til þess í fjárlaganefnd að þessum lífeyrissjóðum verði rennt saman og af því hlýst mikið hagræði því að greiðendur í Lífeyrissjóð hjúkrunarfræðinga eru komnir undir lögbundið mark sem er 800 einstaklingar til að hægt sé að halda lífeyrissjóði úti. En það virðast vera þarna miklir hagsmunir á bak við því að í báðum sjóðum sitja stjórnir og við vitum hvað rekstur lífeyrissjóðanna á ári eru margir milljarðar, eins og hefur komið fram. En þetta hefur ekki gerst ennþá þrátt fyrir að við höfum sett þetta fram í áliti okkar og rætt við hlutaðeigandi aðila. Kerfið virðist verja sig með þessum hætti þrátt fyrir þingvilja Alþingis.

Við fórum líka yfir eftirlaunasjóð starfsmanna Útvegsbanka Íslands, að hann verði lagður niður og það er ekki enn komið til framkvæmda. Við ræddum um að ganga þyrfti frá fjárhagslegum uppgjörum við sveitarfélögin og aðeins hefur verið tekið til í þeim lið eins og til dæmis við samninga sem voru gerðir vegna málefna fatlaðra nú í fjárlagagerðinni 2016. En betur má ef duga skal og það eru nokkuð mörg atriði sem sveitarfélögin telja sig vera hlunnfarin um þannig að ég held að nú sé kominn vilji til að skoða þetta. Sveitarfélögin kalla þetta grá svæði og við fengum einmitt samtökin á fund fjárlaganefndar þar sem var farið yfir þetta. Mig minnir að það sé í einum 20 liðum það sem sveitarfélögin gera athugasemdir.

Svo töluðum við um að daggjaldatekjur þurfi að standa undir gjaldföllnum lífeyrissjóðum launagreiðenda. Við fórum yfir yfirtöku ríkissjóðs á lífeyrisskuldbindingum hjúkrunarheimila og það er langur kafli um það í þessu áliti; ráðist var í að ríkissjóður mundi taka þetta yfir á nokkrum hjúkrunarheimilum. Við fórum yfir að það þyrfti að flytja tilgreindar lífeyrisskuldbindingar Landsbanka Íslands til Landsbankans nýja. Það er eitthvað sem var rætt á sínum tíma og Fjármálaeftirlitið ræddi við Landsbanka Íslands, gamla bankann. Það var á þann hátt að Ríkisendurskoðun og Fjármálaeftirlitið voru ósammála um hvernig ætti að leysa þetta mál en mér skilst að það hafi verið látið kyrrt liggja vegna þess að annars hefði þurft að hrófla við og fara inn í neyðarlögin. Við bendum því á að Ríkisendurskoðun og Fjármálaeftirlitið séu ósammála um hvernig eigi að leysa þetta mál.

Við ræddum áhættugrundaða endurskoðun. Við ræddum að forstöðumenn ættu ekki að geta stofnað til útgjalda á grundvelli vilyrða ráðherra og þingmanna. Það er eitthvað sem við tókum heils hugar undir í fjárlaganefnd. Við ræddum að ríkisreikningur er ekki samstæðureikningur en það breytist með lögunum um opinber fjármál. Við ræddum fjárhagsstöðu Grímshaga ehf. Þetta er gamalt mál. Þetta var dótturfélag Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri.

Við ræddum eignarhlut ríkisins í sparisjóðum, stöðu eignasafns Seðlabankans og hlutverk Seðlabankans, úttektir upplýsingakerfa, öryggi upplýsingakerfa í tölvudeildum ríkisins.

Við ræddum um að það þyrfti að móta stefnu um nýtingu skýjatækni, bætta þjónustu ríkisins og aukna hagkvæmni í rekstri. Við ræddum áætlanir á tekjustofna framteljanda og eftirstöðvar helstu tekjuflokka, eftirstöðvar höfuðstóls í virðisaukaskatti, uppgjör tryggingagjalds við lífeyrissjóði vegna örorkubyrðar, stöðu niðurfærslureikninga, áhvílandi skuldbindingar sem væru færðar upp í efnahag ríkisins.

Við ræddum sveiflur í virðisaukaskatti af innlendum vörum og þjónustu og ræddum flækjur í uppgjöri tryggingagjalds, um afkomu Lánasjóðs íslenskra námsmanna og síðasti punkturinn var afkoma Hörpu, tónlistar- og ráðstefnuhúss.

Virðulegi forseti. Þetta er nokkuð ítarlegt og tíminn ekki mikill til að fara yfir þessi mál og þetta álit. En ég bendi þeim sem eru að horfa á þessa útsendingu á að þetta mál má finna á vef Alþingis, þskj. 351 í máli 305, þannig að þar er hægt að lesa sér sérstaklega til um hvern og einn punkt sem við gerðum athugasemd við. Eins og ég sagði í upphafi þá koma fyrst fram athugasemdir sem Ríkisendurskoðun gerði við viðkomandi mál. Síðan er málið reifað og svo endar hver punktur í því að fjárlaganefnd setur fram álit sitt.

Virðulegi forseti. Ég hef lokið máli mínu.