145. löggjafarþing — 78. fundur,  18. feb. 2016.

siglingalög o.fl.

375. mál
[12:56]
Horfa

Frsm. um.- og samgn. (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á siglingalögum, umferðarlögum og lögum um rannsókn samgönguslysa vegna innleiðingar EES-reglna.

Í nefndaráliti nefndarinnar kemur fram að lagðar eru til breytingar á siglingalögum með síðari breytingum sem felur í sér ákvæði um réttindi farþega sem ferðast á sjó eða skipgengum vatnaleiðum.

Í öðru lagi eru lagðar til breytingar á umferðarlögum með síðari breytingum. Þar eru lagðar til breyttar skilgreiningar á bifhjólum og torfærutækjum og hins vegar sektarheimild ef framleiðandi, fulltrúi framleiðanda, innflytjandi eða dreifingaraðili ökutækis framvísar röngum upplýsingum um gerðarviðurkenningu til viðurkenningaraðila.

Í þriðja lagi eru lagðar til breytingar á lögum um rannsókn samgönguslysa. Tilefni þeirra breytinga eru ábendingar frá ESA þess efnis að ósamræmis gæti milli íslenskra laga og reglugerða og efnis tilskipunar 2009/18/EB og annarra gerða sem teknar hafa verið upp í EES-samninginn og lagður hefur verið grunnur að þegar. Hluti þessara ákvæða var innleiddur með reglugerðum.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt. Hún fékk til sín gesti sem ekki gerðu teljandi athugasemdir við málið, ekki þannig að ástæða þætti til að breyta málinu með nokkru móti, því er lagt til hér að málið verði samþykkt óbreytt. Undir það rita allir þeir sem viðstaddir voru úttektarfund umhverfis- og samgöngunefndar; hv. þm. og formaður nefndarinnar Höskuldur Þórhallsson og hv. þingmenn Katrín Júlíusdóttir, Birgir Ármannsson, Elín Hirst, Vilhjálmur Árnason og sú sem hér stendur.