145. löggjafarþing — 78. fundur,  18. feb. 2016.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 115/2015 um breytingu á XIII. viðauka og XIX. viðauka við EES-samninginn.

430. mál
[13:31]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 115/2015 um breytingu á XIII. viðauka er varðar flutningastarfsemi og XIX. viðauka er varðar neytendavernd við EES-samninginn.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Aðalheiði I. Þorsteinsdóttur frá utanríkisráðuneytinu og Björn Frey Björnsson frá innanríkisráðuneytinu. Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 115/2015, frá 30. apríl 2015, um breytingu á viðauka er varðar flutningastarfsemi og viðauka er varðar neytendavernd og til að fella inn í samninginn reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins nr. 181/2011 frá 16. febrúar 2011 um réttindi farþega í hópbifreiðum og um breytingu á reglugerð frá árinu 2006 og reglugerð Evrópusambandsins þar um.

Sex mánaða frestur samkvæmt EES-samningnum til að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara var veittur til 30. október 2015. Framsetning tillögunnar eftir yfirferð nefndarinnar er að mati nefndarinnar í samræmi við 4. gr. reglna um þinglega meðferð EES-mála.

Þessari reglugerð, sem er nr. 181/2011, er ætlað að bæta réttindi og neytendavernd farþega á landi til jafns við réttindi og neytendavernd flugfarþega og farþega á sjó. Flest ákvæði reglugerðarinnar taka eingöngu til áætlunarferða sem eru að minnsta kosti 250 km. Þó eiga sum ákvæði gerðarinnar einnig við um styttri ferðir.

Til frekari skýringar er reglugerðinni ætlað að tryggja að farþegar á ferðum sem eru að minnsta kosti 250 km fái fullnægjandi aðstoð, svo sem hressingu, mat eða gistingu, ef nánar tiltekin töf verður á ferðum. Eins og kemur fram í áliti nefndarinnar er hér einnig fjallað um endurgreiðslu eða endurbókun vegna yfirbókunar ferða eða seinkunar umfram 120 mínútur.

Þá er einnig talað um skaðabætur er það varðar og rétt til upplýsinga og gjaldfrjálsar aðstoðar til handa fötluðum og hreyfihömluðum á hópbifreiðastöðvum og um borð í hópbifreiðum. Ferðir aðstoðarfólks þeirra skulu jafnframt vera þeim að kostnaðarlausu.

Þau ákvæði gerðarinnar sem eiga við um akstur hópbifreiða á styttri jafnt sem lengri leiðum leggja bann við mismunun farþega hvað varðar fargjöld og aðgengi, og þá er aftur komið inn á mismunun er varðar fötlun, hreyfihömlun eða þjóðerni.

Þá eru settar lágmarksreglur um upplýsingagjöf til farþega, til að mynda um réttindi þeirra og ferðaupplýsingar og um sjálfstæðar stofnanir í hverju ríki sem annast skulu framfylgd reglugerðarinnar.

Að lokum er kveðið á um skyldubundna þjálfun ökumanna við flutning á hreyfihömluðum farþegum á öruggan hátt. Ísland hefur heimild til að veita frest til innleiðingar þessa ákvæðis til 1. mars 2018.

Ísland hefur auk þess heimild til að veita tímabundna undanþágu til 1. mars 2017 frá vissum ákvæðum reglugerðarinnar sem snúa að ferðum hópbifreiða innan lands.

Gert er ráð fyrir að innanríkisráðherra leggi fram á yfirstandandi þingi frumvarp til nýrra laga um almenningssamgöngur þar sem lagastoð yrði fyrir umræddri reglugerð.

Reglugerðin kann að auka kostnað rekstraraðila, og er rétt að geta þess, sem gera út hópbifreiðar til áætlunarferða.

Þá mun Samgöngustofa þurfa kerfi til að taka á móti kvörtunum vegna ferða í hópbifreiðum, svipað því sem nú er til staðar og snýr að flugfarþegum.

Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt óbreytt.

Að nefndarálitinu standa allir hv. þingmenn í utanríkismálanefnd að undanskildum Elínu Hirst og Karli Garðarssyni sem voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.