145. löggjafarþing — 78. fundur,  18. feb. 2016.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 116/2015 um breytingu á XIII. viðauka og XIX. viðauka við EES-samninginn.

431. mál
[13:35]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 116/2015 um breytingu á XIII. viðauka, er varðar flutningastarfsemi, og XIX. viðauka, er varðar neytendavernd, við EES-samninginn.

Nefndin hefur fjallað um þetta mál á fundum sínum og fengið á sinn fund Aðalheiði I. Þorsteinsdóttur frá utanríkisráðuneytinu og Björn Frey Björnsson frá innanríkisráðuneytinu.

Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingar á umræddum viðaukum er varða flutningastarfsemi og neytendavernd og til að fella inn í samninginn reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins nr. 1177/2010 frá 24. nóvember 2010 um réttindi farþega sem ferðast á sjó eða skipgengum vatnaleiðum og um breytingu á reglugerð nr. 2006/2004.

Sex mánaða frestur samkvæmt EES-samningnum til að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara var veittur til 30. október 2015. Framsetning tillögunnar telst að mati utanríkismálanefndar í samræmi við 4. gr. reglna um þinglega meðferð EES-mála.

Reglugerð nr. 1177/2010 er ætlað að tryggja að réttindi farþega á sjó og skipgengum vatnaleiðum verði sambærileg réttindum flugfarþega og farþega á landi. Gerðin samræmir neytendavernd óháð því hvort um er að ræða flug, siglingar eða flutninga á landi. Þá leggur reglugerðin bann við mismunun farþega hvað varðar flutningsskilyrði auk þess að banna mismunun fatlaðra og hreyfihamlaðra.

Ákvæði gerðarinnar snúa að ábyrgð rekstraraðila þegar slys eiga sér stað, aðgengi fatlaðra og fólks með skerta hreyfigetu, réttindum farþega og skyldum rekstraraðila þegar röskun verður á ferðatíma, upplýsingaskyldu rekstraraðila og hraða málsmeðferðar í tengslum við brot gegn réttindum farþega.

Gerðin tekur til allra tegunda skipa sem annast farþegaflutninga í atvinnuskyni á sjó og skipgengum vatnaleiðum. Undanþegin ákvæðum gerðarinnar eru farþegaskip sem hafa þrjá eða færri í áhöfn og fara ekki lengra en 500 m aðra leið, skip í skoðunar- og útsýnisferðum að frátöldum skemmtiferðaskipum þar sem dvalið er þrjár eða fleiri nætur um borð og gömul farþegaskip sem hafa sögulegt gildi, eru smíðuð fyrir árið 1965 og rúma 36 farþega eða færri.

Innleiðing gerðarinnar kallar á breytingar á siglingalögum, nr. 34/1985, með síðari breytingum.

Reglugerðin kann að auka kostnað rekstraraðila sem reka skip sem falla undir gildissvið hennar.

Þá mun Samgöngustofa þurfa kerfi til að taka á móti kvörtunum vegna ferða á sjó, svipað því sem nú er til staðar og snýr að flugfarþegum.

Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt óbreytt og undir það rituðu allir fulltrúar í hv. utanríkismálanefnd að undanskildum hv. þingmönnum Elínu Hirst og Karli Garðarssyni sem voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.