145. löggjafarþing — 78. fundur,  18. feb. 2016.

fullgilding stofnsamnings um Innviðafjárfestingabanka Asíu.

436. mál
[14:18]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil taka undir með talsmanni minni hlutans, hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur, sem lýsti því yfir að hún gæti ekki staðið að samþykkt þessa máls. Það get ég ekki heldur, ég er því reyndar mjög andvígur án þess að það sé að öllu leyti ljóst hvað það er sem við erum að samþykkja hér. Það er ein ástæðan fyrir því að ég vil gjalda við því varhuga. Sönnunarbyrðin hvílir á þeim sem vill skuldbinda íslenska skattgreiðendur til að leggja af mörkum, í áföngum að sönnu, og tryggja 2,3 milljarða kr. til þessa alþjóðlega banka. Stjórnvöld hafa hreinlega ekki risið undir þeirri sönnunarbyrði. Ekki hafa verið færð rök fyrir því að okkur beri að gera þetta. Hins vegar verð ég að segja að sporin hræða. Mig langar aðeins til að setja þetta inn í sögulegt samhengi.

Til hafa verið þróunarbankar og þróunarsjóðir, verið hefur til slíkur norrænn sjóður og efast ég ekki um að hann hafi gert marga góða hluti. Svo kann að eiga við um aðrar sambærilegar stofnanir og sjóði og banka sem settir hafa verið á laggirnar í tímans rás. Við þekkjum náttúrlega þann stærsta sem er Alþjóðabankinn. Eins og við vitum þá voru tvíburasystkinin, Alþjóðabankinn og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, starfandi mjög samkvæmt pólitískri forskrift. Hér í kringum aldamótin þá kom mjög oft til umræðu hér á þinginu framganga íslenskra stjórnvalda innan stjórnkerfis þessara stofnana, ekki síst þá Alþjóðabankans og þær forsendur sem hann starfaði samkvæmt. Það var reyndar mjög umdeilt víða um lönd. Bankinn vann sínar áætlanir á tímabili samkvæmt því sem á ensku var kallað „Structural Adjustment Programs“, umbreytingaráform. Þessi áform sneru fyrst og fremst að innviðum samfélaga sem njóta áttu styrkveitinga, það voru fátækari ríki heimsins. Sérstaklega var talað um innviði á borð við orkufyrirtæki, fjarskiptafyrirtæki o.s.frv. Skilyrðin fyrir lánveitingum voru oftar ekki markaðsvæðing, að þessi starfsemi yrði rifin út úr ríkisforsjá og sett á markað, þá komu peningarnir. Það var gagnrýnt og mönnum þótti það ósiðlegt og rangt að alþjóðafjármagnið notaði Alþjóðabankann í þessu skyni sjálfu sér til framdráttar. Þá var skipt um nafn. Um tíma hét Structural Adjustment Programs „Poverty Reduction Programs“, þ.e. áform til að draga úr fátækt, mönnum þótti það hljóma betur, en inntakið var nákvæmlega hið sama. Skilyrðin voru til markaðsvæðingar og einkavæðingar innviðanna.

Nú veltir maður því fyrir sér: Hvar á áherslan að liggja í þessum banka? Fram kemur í sjálfri þingsályktunartillögunni og í áliti meiri hluta utanríkisnefndar að þar á bæjum velkjast menn ekki í vafa um hvar áherslan eigi að liggja. Okkur er sagt að þetta tryggi Íslendingum aðkomu að bankanum, ákveðinn forgang. Svo segir bæði í sjálfri þingsályktunartillögunni og í áliti frá meiri hlutanum að í þessu felist tækifæri fyrir íslenskt viðskiptalíf og geri Ísland sýnilegra á stærsta vaxtastigi heimsins. Með öðrum orðum, áherslan er ekki á þróun fátækra ríkja eða aðstoð við þau, heldur er þetta viðskiptatækifæri fyrir íslensk fyrirtæki.

Það er náttúrlega ekkert bannað og alls ekki slæmt og auðvitað viljum stuðla að góðri stöðu íslenskra fyrirtækja, jafnvel og ekki síst þeirra sem starfa í orkugeira o.s.frv., tengjast innviðunum. En við eigum eftir að fá að vita hitt; hver er umgjörðin? Hvað er það sem menn eru að reyna að ná fram?

Ég vakti athygli á því í umræðu hér um daginn í tengslum við TiSA-samningana að tillögur Íslendinga og Norðmanna á samningafundi í Genf, eins og Wikileaks upplýsti á sínum tíma, sneru að þjónustu á sviði orkumála, „Environmental Services“, var það kallað. Það voru orkutengd verkefni og ekkert slæmt við að við reynum að hasla okkur völl á slíku sviði, en við viljum ekki þröngva einum eða neinum til þess að eiga við okkur viðskipti á forsendum samninga eins og TiSA. Og um það snýst allt þetta mál, að menn séu frjálsir í þessum samskiptum. Þarna hefur legið ágreiningurinn við Alþjóðabankann og gagnvart þessum TiSA-samningum og spurningin snýr einnig að þessu. Eins og maður les þetta hér er innihaldið nákvæmlega sama og var að finna í gögnum Alþjóðabankans.

Ég lá mjög yfir því á sínum tíma og gagnrýndi ýmsar ræður sem fluttar voru, ekki bara fyrir Íslands hönd heldur einnig Norðurlandanna. Það er engin afsökun þegar menn segja: Það eru allir hinir að gera þetta og öll hin Norðurlöndin, Evrópuríki gera þetta. Já, já, þau eru líka í TiSA-samningunum. Það er þarna sem alþjóðafjármagnið hefur náð að beita hinu pólitíska valdi. Síðan er hlaupið af stað með 2,3 milljarða af skattfé Íslendinga og það er fínt og allir samþykkja það vegna þess að allir gera það. Það er engin röksemd. Íslensk stjórnvöld hafa hreinlega ekki risið undir ábyrgð sinni og sönnunarskyldu gagnvart þinginu og það er alveg fráleitt að samþykkja þetta mál með slíkum hætti nánast umræðulaust. Það var rætt í tengslum við fjáraukann fyrir jól og svo fer fram þessi umræða núna. Ég vil sérstaklega þakka hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur fyrir að vera sú rödd í utanríkismálanefnd þingsins sem vekur máls á gagnrýnum þáttum þessa gjörnings. Það er mjög þakkarvert að það skuli gert.

Síðan er hitt sem mér finnst nú ástæða til að hugleiða þegar alþjóðakerfið er að búa sér til sérréttindi, og það á reyndar við um alþjóðastofnanir almennt, Sameinuðu þjóðirnar og hinar alþjóðlegu stofnanir, að allir eru skattfrjálsir. Síðan þarf náttúrlega að tryggja að jafnvel þótt menn brjóti af sér í þeim ríkjum þar sem þeir hafa komið sér niður þá eru engar lögsóknir, allir eru lausir við allt slíkt.

Hér segir í 50. gr., með leyfi forseta:

„Allir aðalfulltrúar í bankaráði, stjórnarmenn, varamenn, forseti, varaforsetar og aðrir stjórnendur og starfsmenn bankans, þ.m.t. sérfræðingar og ráðgjafar sem sinna verkefnum og þjónustu fyrir bankann:

i. skulu undanþegnir málssókn að því er varðar framgöngu þeirra í starfi fyrir bankann …“

Er þetta sniðugt? Finnst mönnum það? Og allir skattfrjálsir. Við erum að taka þátt í því að smíða svona alþjóðlegt forréttindakerfi sem hugsanlega, ég ætla ekki að fullyrða um það, en hugsanlega verður beitt til að þvinga fátækari hluta heimsins til markaðsvæðingar á innviðum sínum. Í samningnum, í þessum stofnsamningi, er vísað í innviðina sérstaklega.

Hér segir í 2. gr. um hlutverk: „Að hvetja til einkafjárfestingar í verkefnum“ og síðar „einkum í innviðum.“

Hvaða innviðum? Hvernig? Á hvaða forsendum? Við vitum það ekki. Hefur það verið rætt? Ég spyr, af því að hv. þm. Brynjar Níelsson hefur beðið um orðið í andsvari: Ætlar hann að skýra það fyrir mér? Ætlar hann að segja mér hvaða innviðir það eru sem við erum að skuldbinda okkur til að fara að ráðskast með? Ætlar hv. formaður utanríkismálanefndar að skýra það fyrir mér? Hvað er það nákvæmlega sem verið er að tala um? Hvaða skilyrði verða sett? Mun hann starfa á sömu forsendum og Alþjóðabankinn og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn? Mun hann gera það eins og þeir gerðu hér fram undir og fram yfir aldamótin? Verður það þannig? Hefur það verið rætt? Nei, nei. 2,3 milljarðar vesgú. Er ekki pláss fyrir þessa 2,3 milljarða og þó þeir séu í slumpum, 100 milljónir í einu, er ekki pláss fyrir þá inn á Landspítala, er það ekki?

Hvernig væri að veita þetta fé þangað í staðinn fyrir að ráðast í slíka skuldbindingu á bara einni forsendu fyrst og fremst: Allir hinir eru að gera það, við hljótum að vera með? Svo getur sól Íslands fengið að skína á þessum fínu fundum öllum þar sem allir eru skattfrjálsir, undanþegnir lögsóknum og réttarkerfi í ríkjum svona forréttindakerfi, forréttindafólk heimsins er þar að búa um sig og Ísland er með. Það verður til þess að við verðum sýnilegri í þessum stóra hluta heimsins sem bankinn tekur til með starfssvæði sitt. Er það það sem Ísland þarf helst á að halda núna? Ég held ekki.