145. löggjafarþing — 78. fundur,  18. feb. 2016.

fullgilding stofnsamnings um Innviðafjárfestingabanka Asíu.

436. mál
[14:29]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er mjög gaman að heyra í hv. þm. Ögmundi Jónassyni því að hann ræðir oft um pólitík, um prinsipp. Það er mjög ánægjulegt. Nú höfum við gert svona áður. Við erum hluti af Alþjóðabankanum, Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Er hv. þingmaður að halda því fram að þessar stofnanir hafi ekki komið mörgum þjóðum, sem voru illa staddar tímabundið, til bjargar?

Tilgangurinn er að aðstoða. Okkur getur greint á um það, og það er hinn pólitíski munur, hvernig eigi að gera það. Það er alveg rétt að menn leggja upp úr því að auka viðskipti, frjáls viðskipti, að það sé grundvöllur þess að koma ríkjum úr fátækt, möguleikinn á framförum. Það hefur aldrei gerst með ríkisrekstri eða slíkum innviðum, það er búið að prófa það allt saman fyrir löngu með afleitum árangri, hv. þm. Ögmundur Jónasson.

Menn geta kallað það pólitík, en menn eru löngu búnir að komast að því að til að koma þjóðum á lappirnar eins og sagt er þarf að auka viðskipti, þarf frelsi í viðskiptum. Það gerist ekki öðruvísi, en ég veit að okkur greinir á um þetta.

Þessi þátttaka hér er ekkert öðruvísi, þetta er hluti af aðstoð. Þetta er hluti af þróunarsamvinnu. Við getum alltaf sagt að það vanti í Landspítalann. Við getum líka hætt allri þróunarsamvinnu og sagt: Getum við ekki lagt það í Landspítalann? Það eru billeg rök. En það getur hins vegar skipt máli fyrir þessar þjóðir að fá aðstoð. Það getur líka, eins og önnur þróunarsamvinna, komið okkur til góða að vera hluti af þessari aðstoð. Er þingmaðurinn ekki sammála mér í því?