145. löggjafarþing — 78. fundur,  18. feb. 2016.

fullgilding stofnsamnings um Innviðafjárfestingabanka Asíu.

436. mál
[14:33]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þegar sveitarfélög og ríki taka sig saman og koma á velferðarkerfi þá er forsenda á bak við það. Þetta er ekki ákvörðun, það þarf að skapa verðmæti. Það þarf að hafa frjáls viðskipti sem er algjör forsenda fyrir framförum, tækninýjungum o.s.frv. Þetta verður ekki til af sjálfu sér.

Ef við ætlum að byggja þjóðir upp úr fátækt til bjargálna, þá þarf stundum aðstoð af þessu tagi. Það getur enginn, held ég, haldið því fram, hv. þm. Ögmundur Jónasson, að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og Alþjóðabankinn hafi ekki komið í veg fyrir ýmsar hörmungar sem ella hefðu orðið hjá ýmsum þjóðum hefði þessi aðstoð ekki verið til. Það er veruleikinn.

Auðvitað greinir okkur á um það, það er okkar pólitíski munur, hvernig verðmætin verða til. Sumir trúa því að hægt sé að gera það af hálfu ríkisins; ég tel að ríkið sé alltaf eins og fíll í postulínsbúð þegar það er á markaði. En auðvitað geri ég mér grein fyrir því að þar sem ekki er samkeppni þarf ríkið hugsanlega að vera. Þetta er auðvitað spurningin.

Það er algjört aukaatriði, það eru samþykktir í þessum banka þar sem það er hugsað hvernig hann starfar. Auðvitað geta menn tekið umræðu um það, en í grunninn er þetta aukaatriði. Aðalatriðið er að aðstoðað sé á þessu svæði því að það getur verið mikilvægt bæði fyrir viðkomandi lönd og viðskiptin, fyrir okkur Íslendinga. Það gætu verið hagsmunir í því alveg eins og í þróunaraðstoðinni; það geta verið hagsmunir fyrir Ísland að aðstoða þjóðir. Það gefur ýmsa möguleika. Þetta tel ég vera mikilvægt.

Þess vegna finnst mér sem verið sé að gera mikið úr þessu litla máli hér á þinginu. Ég skil eiginlega ekki hvernig menn geta verið á móti þessu því að þetta er hluti af þróunaraðstoð sem ég tel vera mikilvæga í þessu sem öðru.