145. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2016.

kjaradeila í álverinu í Straumsvík.

[13:34]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Við á Íslandi höfum búið við þau gæði að hér hefur ríkt samstaða um trygg almenn lágmarkslaun sem ákveðin eru í kjarasamningum sem binda allan vinnumarkaðinn. Það eru mikil verðmæti sem felast í þeirri samfélagsgerð og þess vegna er það gríðarlegt áhyggjuefni þegar við sjáum nú að Rio Tinto Alcan er að rjúfa þá samstöðu sem verið hefur um þessar meginlínur á íslenskum vinnumarkaði, neitar að bjóða þau kjör sem Samtök atvinnulífsins hafa almennt boðið viðsemjendum sínum og efnir til átaka við starfsmenn sína sem sýnt hafa bæði þolgæði og fádæma trúmennsku gagnvart fyrirtækinu áratugum saman.

Í kvöld hefst útflutningsbann starfsmanna sem er neyðarbrauð til að reyna að þvinga fyrirtækið að samningsborðinu. Félagið hyggst leita til Félagsdóms og svo virðist sem innlendir stjórnendur fyrirtækisins séu algjörlega áhrifalausir og fyrirskipanir komi frá þessum erlenda auðhring um þessa hörmulegu framgöngu hér á landi. Fyrirtækið er með þessu að segja sig úr lögum við okkur hin og verður að taka afleiðingum af því.

Ég vil spyrja hæstv. forsætisráðherra: Hvað telur hann eðlilegt svar stjórnvalda við þessu? SALEK-samstarfið er í uppnámi ef aðildarfyrirtæki Samtaka atvinnulífsins treysta sér ekki til að bjóða sambærilegar kjarabætur og önnur fyrirtæki innan SA bjóða. Þetta fyrirtæki hefur notið margháttaðrar fyrirgreiðslu hér á haftatímanum og metur nú ekki gestrisni íslenskra stjórnvalda meira en sjá má af þessari framgöngu.

Ég kalla eftir því að hæstv. forsætisráðherra fordæmi þessa framgöngu, komi á framfæri mótmælum við fyrirtækið, mótmælum við Samtök atvinnulífsins og krefjist þess nú, þegar nokkrir dagar eru í að við fögnum 100 ára afmæli (Forseti hringir.) Alþýðusambandsins, að staðinn verði vörður um grundvallarreglur og (Forseti hringir.) réttar leikreglur á vinnumarkaði.