145. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2016.

nýr búvörusamningur.

[13:38]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegur forseti. Mig langar til þess að beina fyrirspurn til hæstv. forsætisráðherra um búvörusamningana sem nú hafa verið undirritaðir og eru á leið inn í þingið.

Enn og aftur virðumst við standa frammi fyrir því að ræða málið eftir á. Það var haft eftir hæstv. forsætisráðherra að hann liti svo á að málið væri nú þegar klappað og klárt.

Mig langaði aðeins til að koma inn á þessi vinnubrögð. Það er óþægileg tilfinning að stór stefnumarkandi mál séu ákveðin einhvers staðar á lokuðum vettvangi án samráðs við alla hagsmunaaðila, án lýðræðislegrar umræðu í þinginu o.s.frv. Það finnst mér ekki vera til fyrirmyndar og ekki í takt við það gagnsæi og þá opnu umræðu sem allir í samfélaginu krefjast nú þegar við erum komin fram á 21. öldina.

Íslenskur landbúnaður er nærri hjarta okkar allra, okkar Íslendinga. Hann er ekki einkamál Bændasamtakanna og landbúnaðarráðuneytisins. Þvert á móti er íslenskur landbúnaður og styrkar dreifðar byggðir eitthvað sem skiptir okkur öll máli, hvort sem við búum úti á landi eða á Melunum á höfuðborgarsvæðinu.

Hér hefði einmitt verið kærkomið tækifæri til að taka umræðuna öll saman en ekki skipta okkur í skotgrafir um listamannalaun eða búnaðarsamning. Hér hefði verið gott tækifæri til að hafa breiðari samstöðu.

Mig langar til að beina þeirri fyrirspurn til hæstv. forsætisráðherra hvort hann sé ekki sammála því að svona stórar stefnumarkandi ákvarðanir, (Forseti hringir.) sem binda hendur okkar jafnvel fleiri ár og fleiri kjörtímabil fram í tímann, ætti að taka á opnari og breiðari grunni.