145. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2016.

starfsreglur verkefnisstjórnar rammaáætlunar.

[13:44]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Nú liggja frammi á vef umhverfis- og auðlindaráðuneytisins breytingartillögur á starfsreglum verkefnisstjórnar rammaáætlunar.

Um þetta hefur verið töluvert rætt og eftir síðustu lotu sem rammaáætlun stóð af sér hér í þingsal þá taldi ég að hæstv. umhverfisráðherra hefði talað skýrt þannig að hún tæki sér stöðu með lögum um rammaáætlun og því viðkvæma og mikilvæga verkefni og verkfæri sem rammaáætlun er.

Nú liggur það fyrir að ein veigamesta breytingartillagan sem ráðherrann leggur til í sínu nafni á vef ráðuneytisins lýtur að því að verkefnisstjórnin geti tekið til endurmats kosti sem þegar hafa verið flokkaðir í verndarflokk rammaáætlunar í rammaáætlun 2.

Það liggur líka fyrir úr fjölmiðlum og því sem Landsvirkjun hefur látið hafa eftir sér í þessu máli að mjög eindregnar óskir hafa borist frá Landsvirkjun um að hægt sé að endurmeta Norðlingaölduveitu og kalla hana Kjalölduveitu með breyttum útlínum sem stundum hafa verið kallaðar totutillaga Landsvirkjunar. Í svörum hæstv. ráðherra við fyrirspurnum fjölmiðla hefur komið fram að hún eða ráðuneytið hafi ekki neitt sérstakt samband við Landsvirkjun í aðdraganda þessarar breytingar og í aðdraganda þessarar tillögu. Nú er það ekki í samræmi við þær upplýsingar sem fram hafa komið í fjölmiðlum vegna fyrirspurnar Landverndar um þau samskipti, þar kemur fram að 17. ágúst 2015 hafi Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, gengið á fund umhverfisráðherra og farið fram á að reglunum yrði breytt. Hann hefur lagt fram skriflegt og ítarlegt erindi þess efnis.

Nú vil ég spyrja hæstv. ráðherra og biðja hana að skera úr um hvað er hið rétta í þessu máli. Tillagan er augljóslega runnin undan rifjum Landsvirkjunar og þrýstingurinn er augljóslega (Forseti hringir.) þaðan og niðurstaðan er augljóslega komin frá Landsvirkjun og orkugeiranum. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Hvað er rétt í þeim efnum að Landsvirkjun hafi þarna kippt í spotta?