145. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2016.

búvörusamningur og framlagning stjórnarmála.

[13:52]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Mig langar til þess að spyrja hæstv. forsætisráðherra um stöðu og horfur ríkisstjórnarinnar, sérstaklega í ljósi þess að nokkuð mörg mál eiga eftir að koma fram þrátt fyrir að mörg stór mál hafi verið sett á dagskrá þingsins. En ég var að velta því fyrir mér á hverju eigum við von það sem eftir er. Við eigum eftir að fara í gegnum húsnæðisfrumvörpin sem SALEK-samkomulagið byggir svolítið á. Það er augljóst að smátitringur er milli ríkisstjórnarflokkanna. Mig langar til að heyra frá hæstv. forsætisráðherra hver upplifun hans er í þessu máli.

Þá virðist líka vera togstreita milli stjórnarflokkanna þegar kemur að búvörusamningunum. Ég heyrði hæstv. ráðherra tala áðan um búvörusamningana sem laun eða kjör. Mér þótti það mjög áhugaverð nálgun á búvörusamninga. Það virðist vera hugmyndafræðilegur munur milli stjórnarflokkanna þegar kemur að þessum stóru málum. Mig langar að heyra frá hæstv. forsætisráðherra hvað hann sér fram á að ríkisstjórnin nái að koma fram með á þeim tíma sem eftir er af þinginu og hvort það sé ekki samstaða um þessi mál í ríkisstjórninni eða hvernig það er.