145. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2016.

búvörusamningur og framlagning stjórnarmála.

[13:57]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég er algjörlega sammála þessu. Það á einmitt ekki að mismuna stéttum hvað þetta varðar, skattfé er varið í launagreiðslur til mjög margra stórra stétta, hjúkrunarfræðinga, lögreglumanna, kennara — ég gæti talið endalaust, virðulegur forseti. Við verjum sameiginlegu skattfé okkar, samfélagsins, til að borga laun og það er raunar stór hluti, líklega stærsti hlutinn af útgjöldum ríkisins. Af því að við erum farin að bera saman ólíkar starfsstéttir sem allar hafa mikilvægu hlutverki að gegna fyrir samfélagið má setja þetta í samhengi við heilbrigðismálin til dæmis. Við jukum útgjöld til heilbrigðismála á milli ára, milli áranna 2015 og 2016, um líklega 19 milljarða kr. Með öðrum orðum er bara aukningin milli ára til heilbrigðismála um helmingi meiri en allar greiðslur til landbúnaðar, 50% meiri eða því sem næst. Þetta samhengi sýnir okkur kannski að þessi gríðarlega mikilvæga grein, grein sem skiptir alla landsmenn máli, er ekkert sérstaklega dýr.